148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér, meira að segja færri en mínar þrjár mínútur gefa mér, og ég ætla heldur ekki að koma á óvart með því að vera á móti því máli sem ég er á. Ég ætla hins vegar að koma hingað upp og nefna sérstaklega hvað ég er ánægð með að sjá það og ég er ánægð með að sjá þá breytingu að miðað skuli vera við sveitarstjórnarkosningar fyrst og fremst, einfaldlega vegna þess að ég tel að þannig séu meiri líkur á að breytingin nái fram að ganga og að það séu þar með meiri líkur á að menn fari alla leið næst. Það er ekki aðeins gott og þarft fyrir unga fólkið okkar að efla lýðræðisþátttöku þess, það er nauðsynlegt fyrir okkur öll. Ég er sannfærð um það, og er á svipuðum slóðum og hv. þingmaður á undan mér, Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem var gaman að sjá í pontu, að við getum margt lært af þeim sem yngri eru. Ég er sannfærð um það að á þessum tímum þegar við erum að kljást við dvínandi kosningaþátttöku, ýmislegt í kosningabaráttu sem okkur hugnast ekkert sérstaklega vel, teljum ekki bæta samfélagið okkar, þá sé unga fólkið jafnvel það sem kunni að leggja línurnar. Þetta er unga fólkið sem kann á samfélagsmiðla. Þetta er unga fólkið sem getur tekið okkur áfram, ekki síður. Ég tel að þetta sé okkur öllum til góða, styð það heils hugar og vona að Alþingi veiti málinu þannig brautargengi að við sjáum þess stað strax í sveitarstjórnarkosningum að vori 2018.