148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fagna því að fá tækifæri til að taka til máls þegar dagskrárliðurinn störf þingsins er í fyrsta skipti á dagskrá 148. þings. Ég hlakka til starfsins hér og veit að því fylgir mikil ábyrgð að starfa á þessum vinnustað þar sem unnið er að því að skapa umgjörð samfélagsins, umgjörð sem þarf að tryggja samfélagslega þróun og ný tækifæri. Umgjörð sem á að tryggja jöfn tækifæri einstaklinga, fyrirtækja og byggðarlaga. Ég bind miklar vonir við að á því þingi sem nú er tekið til starfa takist vel upp. Hér verði unnið að lausnum með virðingu fyrir fjölbreyttum sjónarmiðum. Ég tek því heils hugar undir það markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að efla Alþingi til að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu því að aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.

Ég vona einlæglega að hér verði aldrei unnið að lausnum á þann hátt að etja saman þjóðfélagshópum, hvorki stéttum, hagsmunahópum, landshlutum né byggðarlögum. Ég er þeirrar skoðunar að áherslur ríkisstjórnarinnar á menntamál, samgöngu- og heilbrigðismál séu til þess fallnar að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn samfélagsins alls og efla framþróun og nýsköpun.

Mér finnst magnað að á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ný ríkisstjórn tók til starfa hafi stjórninni tekist að setja skýrt mark á fjárlög ársins 2018 þannig að þessar áherslur sjáist.

Umhverfis- og loftslagsmál eiga líka veglegan sess í stjórnarsáttmálanum og ég hlakka til þess að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum komi hér til umfjöllunar og legg mikla áherslu á að í þeim málaflokki verði allir þátttakendur, ekki síst þeir sem mesta þekkingu hafa (Forseti hringir.) á landnýtingu og ræktun um land allt.