148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég bauð mig fram til setu á Alþingi skoraði góð vinkona mín á mig að brjóta upp alvöruna í þessum sal og bresta í söng í þessum fræga ræðustól. Ég held að ég láti það bíða enda er röddin ekki núna upp á marga fiska. Mér finnst skemmtilegt að vera ein af þeim átta röddum sem hljóma nú á Alþingi. Þær eru allar mikilvægar, hver á sinn hátt. Áskorunin felst í að mynda samhljóm sem nær til eyrna áheyrenda. Sá tónn sem okkur er gefinn hér í upphafsstefinu skiptir miklu máli, eða eins og segir í upphafsorðum nýs stjórnarsáttmála, með leyfi forseta:

„Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón …“

Fram undan eru viðamikil verkefni. Ég fékk ákall að vestan í gær; flutningabíll þverar Ódrjúgsháls í Reykhólasveitinni því að hann kemst ekki leiðar sinnar, ekki vegna snjóa eða hálku heldur vegna þess að hann passar engan veginn við umhverfið. Og vegurinn lokast. Bíllinn tilheyrir nútímanum, vegurinn tilheyrir fortíðinni og er eitt forarsvað á þessum tíma. Samgöngumálin á sunnanverðum Vestfjörðum eru í ólestri. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur verið biluð í nokkrar vikur og kemur ekki aftur fyrr en eftir einhverjar vikur. Með flugi eru í boði tíu sæti sex sinnum í viku. Á meðan reyna íbúar sunnanverðra Vestfjarða að halda uppi nútímaatvinnuvegum og -lífsháttum. Eins og í öðrum landshlutum eru öflugar samgöngur mikilvæg forsenda þess.

Þá pattstöðu sem Vestfjarðavegur um Gufudalssveit er í verður að rjúfa. Framkvæmdum verður að flýta með brýnum hagsmunum sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa á svæðinu að leiðarljósi. Við getum nú myndað samhljóm um það. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Ég óska þingheimi og starfsmönnum Alþingis gleðilegra jóla.