148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og vil taka undir með þeim sem hér hafa sagt að þetta er auðvitað eilífðarmál sem við þurfum alltaf að vera að hugsa um því að húsnæði er jú ein af mikilvægustu þörfum fólks, þ.e. að hafa tryggt húsnæði. Mig langar að taka undir með þeim sem hafa minnst á mikilvægi þess að hafa þarfir ungs fólks í huga, enda vitum við það að ungt fólk hefur verið í erfiðleikum á húsnæðismarkaði. Mér finnst mjög mikilvægt, líkt og kom bæði fram hjá hv. upphafsmanni þessarar umræðu en ekki síður hjá hæstv. ráðherra, að við skoðum áhrifin sem Airbnb hefur á íslenska húsnæðismarkaðinn, þá áhrifin á leiguverðið og svo ruðningsáhrifin sem það svo aftur hefur á ungt fólk og ekki síst þá sem eru tekjulágir. Ég held að við verðum að horfa til þess hvernig við getum náð tökum á þessu. Einnig verðum við að leggja áherslu á að efla enn frekar kerfið um almennar leiguíbúðir.

Svo langar mig að taka undir með hv. þm. Loga Einarssyni sem talaði um það að byggja umhverfisvænt. Að sjálfsögðu eigum við að byggja umhverfisvænt, annað er bara ekki í boði á 21. öldinni.

Um leið og við gerum þetta allt vil ég taka undir það að móta þarf stefnu í húsnæðismálum til langs tíma og þar er mikilvægt að huga að því að regluverkið sé í lagi. Ég er ósammála þeim sem tala alltaf um að einfalda regluverkið. Góð byggingarreglugerð tryggir tekjulágu fólki gott húsnæði og það vil ég standa vörð um. Síðast en ekki síst verðum við að byggja aðgengilegt, (Forseti hringir.) vegna þess að húsnæði í dag þarf að geta þjónað fólki þegar kemst á sín efri ár (Forseti hringir.) þar sem það þarf að geta notað hjálpartæki sem því fylgja. Þess vegna þarf allt húsnæði sem byggt er að vera aðgengilegt.