148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[12:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og kemur því kannski ekki á óvart að ég styðji það, eins og mér heyrist reyndar vera almenni fílingurinn í sal Alþingis, og ég biðst forláts á slettunni, ef þetta er þá sletta lengur, ég skal ekki segja.

Ég þori ekki að fara djúpt út í lagatæknina sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór aðeins út í. Ég tel einsýnt að þetta sé mál sem þurfi að ræða í nefnd til að komast að því nákvæmlega hvernig útfærsluatriði eigi að vera svo vel fari. Hérna er verið að fara með ofboðslega viðkvæman hluta af lögunum okkar sem varðar tjáningarfrelsi, sem er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi. Eins og ég hef oft nefnt áður er tjáningarfrelsið oft þannig að það þarf að vera hægt að tjá hluti sem geta komið öðrum illa að einhverju leyti. Annars er tjáningarfrelsi tilgangslaust.

Það er hins vegar tvennt sem mig langar að nefna, bara til að velta því upp frá heimspekilegra sjónarmiði. Það er annars vegar að einhver gæti sagt að rosalega mikilvægt væri að sýslumaður færi að gera þetta til að þetta gerðist „á nóinu“. Þá vil ég minna á að ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram er tiltekin atburðarás sem átti sér stað rétt fyrir kosningar þar sem að mínu mati, og ég trúi því að það hljóti að vera mat allra sem þekkja málið, var of mikið gripið inn í. Ég lít á þá atburðarás sem staðfestingu á því að lögin séu gölluð. Mér finnst í raun og veru ekki eiga að vera neinn vafi á því í sjálfu sér að lögin heimila þetta lögbann of auðveldlega. Mér finnst atburðarásin fyrir kosningar vera sönnun þess. Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór rækilega yfir áðan snerist þetta um mál æðsta ráðamanns ríkisins, þáverandi hæstv. forsætisráðherra.

Eitthvað þarf að gera. Þetta er tillaga Pírata. Hvort hún tekur breytingum í nefnd eða ekki og hvort þetta er klappað og klárt eða ekki finnst mér vera annað atriði en hvort þörf sé á því. Það er greinilegt eða bersýnilegt að þörf er á þessu.

Ég veit að fyrr eða síðar mun einhver nefna samhengið við friðhelgi einkalífsins. Þá bendi ég aftur á sama mál. Þarna var æðsti ráðamaður ríkisins til umfjöllunar. Það þarf að vera hægt að fjalla um mál hans nokkrum vikum fyrir kosningar, sér í lagi með hliðsjón af þeim hneykslismálum sem hafa varðað þann ágæta herramann í gegnum tíðina. Það er nauðsynlegt. Aftur segi ég: Það er greinilegt að lögin eru of veik gagnvart því að tryggja tjáningarfrelsi þegar mikilvægt er. Aftur vísa ég því til nefndar að skoða útfærsluatriði betur en ítreka líka að hér er ekki lagt til að lögbönn verði ekki möguleg, heldur breytt á þann veg að það gerist aldrei aftur sem gerðist fyrir kosningar. Við eigum að skammast okkar fyrir (Forseti hringir.) að það hafi gerst og laga hið snarasta, enda er þetta forgangsmál af þeirri ástæðu.