148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta mál í sambandi við atvinnutekjur eldri borgara skiptir rosalega miklu máli. Ég var í endurskoðunarnefnd almannatrygginga þegar þetta mál kom upp og þessi hringlandaháttur með frítekjumörk er óþolandi. Í upphafi var þetta 109 þús. kr., síðan fóru þau niður í 25 þús. kr. og nú eiga þau að vera 100 þús. kr. Ef það væri uppreiknað til dagsins í dag miðað við þegar þetta var sett á í upphafi væri talan 195 þús. kr.

Það er annað í þessu sem við gleymum og sem skiptir miklu máli: Hvernig dettur okkur í hug að setja eitthvert fáránlegt frítekjumark á til að reyna að letja einhvern til þess að vinna? Hverjum dettur í hug að banna fólki að vinna með því að hirða allt af því? Það er bara fáránlegt. Við eigum ekki að hugsa þannig. Við eigum að leyfa fólki að vinna sem getur unnið og það borgar sína skatta. Með því komum við líka í veg fyrir það sem allir eru að tala um, svarta atvinnustarfsemi. Það er nefnilega það sem er verið að hvetja þá til að gera sem eru í þessari aðstöðu og þurfa á þessum tekjum að halda fyrir lyfjum, læknisþjónustu eða einhverju öðru. Þegar þeir sjá fram á það að þeir fari að vinna og þeir fá ekkert út úr því, hvað gera þeir? Þeir hljóta að hafa sjálfsbjargarviðleitni og það hlýtur að vera til eitthvað sem er neyðarréttur fyrir þá til þess að fara að vinna.

Ég ætla að benda á að þegar talað er um að kostnaðurinn af þessu sé 2,5 milljarðar þá er það ekki rétt. Haukur Arnþórsson segir í skýrslu sinni að það sé enginn kostnaður af þessu. Ég er sannfærður um að ríkið græðir á þessu. Við græðum öll á þessu, sérstaklega þeir eldri borgarar sem geta farið að vinna og vilja fara að vinna. Það segir okkur líka að við þurfum að tryggja að þeir sem geta ekki unnið heilsunnar vegna til dæmis hafi mannsæmandi framfærslu. Það er það næsta sem við gerum í þessu máli.

Ég segi að ef eldri borgarar sem geta unnið og fara út að vinna og eru þar með í þeirri aðstöðu að hafa efni á því að fara t.d. til læknis og eiga fyrir lyfjakostnaði og öðru þá á ekki að neita þeim um það. Það eru margir í dag sem hafa ekki á efni á þessu, það er líka ljótt. Það er mjög bagalegt fyrir þá sem eru þarna úti og horfa til okkar og segja: Ætla þeir ekkert að gera, ætla þeir virkilega að neita okkur um að fá að vinna nema með því að skatta og skerða okkur svo hroðalega að það er ekkert eftir?

Það gleymist oft í þessu að skattarnir og keðjuverkandi skerðingar valda því oft að þeir sem eru að reyna sitt besta og halda að þeir fái eitthvað út úr þessu kerfi með skerðingum, fá ekki neitt og þeir fara í mínus. Það verður kostnaður. Það er það ljótasta af öllu, að plata fólk til þess að fara að vinna og það fær ekkert út úr þessu nema kostnað. Og það er fólk sem fyrir það fyrsta getur ekki einu sinni lifað á því sem það hefur.