148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti í framsögu minni að auðvitað koma upp tilvik þar sem það er sjálfsagt að spyrja sig hvort þetta mat hafi verið rétt framkvæmt. Ég myndi segja að almennt sé fjármálaráðuneytið í því hlutverki að setja ströng skilyrði á meðan mörg annarra ráðuneyta vilja slaka aðeins á kröfunum. Svo koma upp einstaka matstilvik, hér eru nokkur nefnd. Það þarf að skoða hvert og eitt fyrir sig. Ég nefndi hér vegaframkvæmdirnar, það má alveg spyrja sig um það, en þar var um það að ræða að komur ferðamanna halda áfram að aukast og smám saman hefur skapast ástand á hluta vegakerfisins sem ríkisstjórnin taldi nauðsynlegt að bregðast við. Varðandi kirkjuna hafa menn verið að leita leiða til að ná samkomulagi og þær tilraunir standa enn yfir en þarna er verið að falla frá aðhaldskröfu frá fyrri árum. Það er hægt að rekja sig í gegnum þessi tilvik og nefndin ætti kannski að gera það eins og venjulega, (Forseti hringir.) að skoða þau. En á endanum (Forseti hringir.)tel ég að hérna sé í öllum tilvikum um að ræða útgjöld sem eru fallin til (Forseti hringir.)og það er spurning á hvaða ári menn ætla að bóka þau.