148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er rétt að sérstaklega sögulega hefur þetta verið mikið vandamál. Hér er nefnt tímabilið frá 2010. Það má segja að frá þeim tíma hafi þetta verið miklu skárra en þetta var, sögulega. Ég vék að því hér áðan að um einn þriðji af fjárheimildunum sem farið er fram á í þessu fjáraukalagafrumvarpi er einfaldlega vegna ákvörðunar um uppkaup á erlendri útgáfu í dollurum og síðan í evrum, sem ég held að hafi verið góð ráðstöfun og skynsamleg.

Varðandi varasjóðinn er sá galli á að byrja á að nýta hann að það er mun minna gagnsæi í því. Það er miklu meira gagnsæi t.d. gagnvart þinginu að koma bara með heimildirnar og óska eftir því að þingið afgreiði þær hverja fyrir sig. Þó að reyndar sé gert ráð fyrir að fjármálaráðherra geri grein fyrir ráðstöfun varasjóðs gagnvart nefndinni er það meiri eftirágjörningur.