148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vísað í samkomulag sem var gert opinbert eða viljayfirlýsingu frá því 2. júní í sumar milli fjármála- og efnahagsráðherra og borgarstjórans í Reykjavík. En varðandi virði sem er þarna undirliggjandi er eins og oft er um það samið að það muni ráðast af framtíðarbyggingarmagni á umræddum reitum. Það á eftir að koma í ljós nákvæmlega. Þó er þarna um að ræða sameiginlega yfirlýsingu um vilja til að þróa lóðir og lönd í Reykjavík sem eru í eigu eða umráðum ríkisins. Það kann að fara þannig með sumar af þessum spildum að það verði engin niðurstaða. Við getum nefnt Veðurstofuhæðina. Kannski koma fram athugasemdir varðandi hugmyndir um þróun þeirrar hæðar sem leiða til þess að menn sjá ekki fyrir sér að koma henni í þau not sem þarna var hugsað um. Þetta á eftir að koma í ljós.