148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Komið er inn á mjög margt í máli hv. þingmanns. Ég ætla að reyna að koma sem mestu frá mér í stuttu andsvari.

Í fyrsta lagi gef ég mér að fjárlaganefndin hafi fengið skýrslu frá fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu fjárheimilda einhvern tímann um mitt ár, það er algjörlega hefðbundið.

Ég gef mér sömuleiðis að þar hafi komið fram öll þau helstu mál sem við ræðum hér, þ.e. að við myndum fara fram úr áætlun t.d. í lyfjunum, sem er mjög þungur og erfiður málaflokkur, að það væri meiri kostnaður og meiri fjölgun öryrkja og aldraðra en gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu og hvort leitað hafi verið skýringa á því.

Ég vek athygli á því að hér hefur verið meiri fjölgun öryrkja á þessu ári og reyndar á undanförnum árum en lýðfræðileg fjölgun hefur verið í þessu þjóðfélagi.

Ég verð sömuleiðis að nefna það hér að fjárlögin eru auðvitað áætlun um ýmsa svona þætti. Það er ekki við því að búast að við hittum akkúrat á útgjöld næsta árs með þeirri áætlun sem fjárlög eru um einstaka málaflokka þar sem er um að ræða lögbundin útgjöld. Ekki hefur verið stofnað til skuldbindinga þannig að ríkið sé algerlega fast án þess að fyrir því væru lagaheimildir, það er alveg skýrt.

Þegar ég vék að varasjóðnum og bar saman við fjáraukann var ég að vísa sérstaklega í 2. mgr. 24. gr. um opinber fjármál þar sem segir:

„Ráðherra tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýtingu þess þegar ákvörðun liggur fyrir.“

Það sem hv. þingmaður rakti hérna varðandi skyldur ráðherra til þess að gera grein fyrir stöðu fjárheimilda á móti verkefnum sínum þá er það skylda fagráðherranna að gera það. En í 24. gr. er verið að tala um ráðstöfun á varasjóði. (Forseti hringir.) Það er aðeins áferðarmunur á því hvort fjármálaráðherrann tekur þá ákvörðun og ráðstafar úr sjóðnum og kemur svo og segir (Forseti hringir.) hvernig það endaði allt saman, eða hvort þetta kemur til umræðu í þinginu.