148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi áður er tíminn sem við höfum fengið til að skoða þetta mál fáránlega stuttur. Það er algengt að á Alþingi almennt sé það vandamál en þessum kringumstæðum er ekki hægt að lýsa öðruvísi en fáránlegum. Við höfum gert okkar besta í þingflokki Pírata til að fara yfir þetta mál með eins mikilli kostgæfni og okkur hefur verið mögulegt, en eins og hv. þingmaður nefndi réttilega hér áður þýðir sá flýtir og álag sem við höfum þurft að venjast í þessari viku að litlar líkur eru á því að einhver mistök verði gerð, ýmist í frumvarpinu sjálfu eða í atkvæðagreiðslum. Þannig er lífið þegar maður fær ekki tíma til að gera hlutina almennilega. Að því sögðu er viðbúið að við greiðum atkvæði eftir því sem okkur hefur tekist að kynna okkur málin vel og bera saman við stefnu flokksins, og okkar eigin skoðanir auðvitað. Af og til munum við kannski ekki greiða atkvæði alveg í takt vegna þess að þannig eru aðstæður og þannig er pólitíkin, eðlilega, en það er alla vega er rétt að halda því til haga.