148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við í Samfylkingunni erum að gera er einfaldlega að leggja fram tillögur sem hv. þingmaður hefði stutt fyrir 100 dögum en gerir ekki í dag af einhverjum furðulegum ástæðum.

Mig langar að vitna í annan stað í sömu ræðu, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin er að viðhalda fátækt með aðgerðum sínum í þessu frumvarpi gagnvart stórum hluta þessa hóps.“

Hér er hv. þingmaður að tala um aldraða og öryrkja og gagnrýna fjárlagafrumvarp fyrrverandi ríkisstjórnar, sem er að breytast nú að svo litlu leyti. Það frumvarp viðhélt fátækt hjá öldruðum og öryrkjum. Nú þegar hv. þingmaður er orðinn stjórnarþingmaður og breytir frumvarpinu um 2,2%, er þá ekki verið að viðhalda fátæktinni lengur?

Hann heldur ekki alveg vatni, málflutningur Vinstri grænna um að hér hafi ekki verið möguleiki á að gera meira. Eins og ítrekað hefur komið fram eru til tekjuleiðir í þessu samfélagi sem við ættum að ráðast í til að mæta þeim kröfum og óskum sem hv. þingmaður bar á borð fyrir einungis 100 dögum.