148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér skildist að samkomulag væri um að ráðherrar yrðu hérna til þess að svara spurningum þegar þær kæmu fram í ræðum. Ég átta mig á að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er stjórnarliði en það vill svo skemmtilega til að næstur á mælendaskrá er hv. 3. þm. Norðaust., Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ég veit ekki með þann ágæta hv. þingmann en ég hefði mjög gaman af því ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra væri hér til að hlýða á hann, ég sé það alla vega fyrir mér. Það er kannski óvenjulegt að ég sé að biðja um ráðherra fyrir annan þingmann en ég verð að segja að mér finnast mjög áhugavert að hlusta á samtal þeirra tveggja, hv. þingmanns og hæstv. ráðherra. Ég vildi minnast á þetta og taka undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem nefndi sama atriði áðan.

Ég vek athygli á því að hér hefur það enn ekki átt sér stað sem gerðist mikið 2013–2016, að fólk færi mikið í fundarstjórn. Ég læt þetta duga og geri ráð fyrir að það dugi. En höfum reynsluna sem víti til varnaðar.