148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég haldi áfram með þessa tilteknu umræðu á öðrum vettvangi vegna þess að ég verð alltaf svo voðalega ringlaður yfir þessu hægri/vinstri dóti. Við ræðum hér fjárlögin sem eru alltaf umdeild, eðlilega, eins og hv. þingmaður fór lítillega inn á. Ég hef tekið eftir því, bæði þegar ég var hér 2013–2016 og núna, verandi í stjórnarandstöðu í bæði skiptin, eða svokallaðri stjórnarandstöðu, ég leit nú ekki alltaf á það sem stjórnarandstöðu, þá getur verið mjög erfitt að koma athugasemdum og tillögum minni hlutans eða stjórnarandstöðu inn í umræðuna þannig að meiri hlutinn taki mikið mark á henni, hvað þá samþykki hana í þingsal. Mér fannst ég sjá þetta fyrr í dag þegar algjörlega meinlausri tillögu okkar Pírata var hafnað af meiri hlutanum. Kannski vegna þess að hérna erum við öll í þessu óðagoti sem gerir það að verkum að þau ná kannski ekki að kynna sér hana nógu vel, það getur verið, ég veit það hreinlega ekki, en það minnti á það mynstur sem ég er vanur að sjá hér á Alþingi. Það er alltaf þessi skipting, þessi ótrúlega merkilega skipting milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Jafnvel þegar það eru mjög ólíkir flokkar í stjórn og mjög ólíkir flokkar í stjórnarandstöðu, þá er skiptingin alltaf milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Mér finnst þetta félagsfræðilega áhugavert verð ég að segja. Það er mjög erfitt fyrir okkur í minni hlutanum að koma að tillögum sem eru ýmist meinlausar eða hreinlega stemma við skoðanir, jafnvel yfirlýstar skoðanir hæstv. ráðherra, hvað þá hv. þingmanna í meiri hlutanum.

Þar sem hv. þingmaður var í stjórn og var reyndar forsætisráðherra þorrann af því tímabili sem ég var hér síðast þá velti ég fyrir mér hvernig er hægt að haga þessari umræðu og þessu starfi þannig að rödd stjórnarandstöðu sem ber fram tillögur og kemur með athugasemdir eins og hv. þingmaður er að gera, margar hverjar mjög áhugaverðar verð ég að segja, heyrist. Hvernig telur hv. þingmanna með ráðherrareynslu sína að sé best fyrir okkur að koma þessum mikilvægu athugasemdum sem hv. þingmaður sjálfur bendir á að ríkisstjórninni þannig að á verði hlustað?