148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 2008 var samþykkt valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem fól í sér stofnun kærunefndar sem hefur úrskurðarvald gagnvart samningsaðilum um brot gegn ákvæðum samningsins. Nú hef ég lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórninni verði falið fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðsamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þetta myndi gera Íslendingum kleift að senda erindi til kærunefndar við brot á samningi.

Ég spyr því hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hvort þetta væri leið sem ráðherra teldi til bóta til að tryggja að ríkisstjórn Íslands sýndi þessum réttindum alvöruáhuga.