148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum hér til atkvæða um fjárlög 2018. Umræðan fyrr í dag, 2. umr., fannst mér þvert á móti mjög málefnaleg og góð — með þvert á móti er ég að vitna til orða hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur. Breytingartillögur sem hér birtast í atkvæðaskýringaskjali meiri hluta og nefndaráliti skiptast m.a. í framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, í samgöngur, í umhverfismál þar sem verið er að koma til móts við náttúrustofur um allt land, þannig að hér eru mörg brýn og góð samfélagsleg verkefni sem meiri hlutinn er að bregðast við eftir gestakomur í vikunni. Þessi fjárlög eru mjög ábyrg eins og kom fram hér, hagstjórnaráhrif í dag og forgangsröðunin birtist mjög skýrt.