148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög áhugaverður kafli í ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar sem mig langar að reifa frekar. Hann var um breytingartillögur og dínamíkina sem ég alla vega hef upplifað í kringum sumar breytingartillögur í gegnum tíðina. Mér finnst oft þegar reynt er að búa til breytingartillögur þeim stillt upp á pólitískan hátt, því að fólk veit yfirleitt að þeim verður hvort sem er hafnað, sem annaðhvort sýnir vilja þeirra sem eru í minni hluta eða eru breytingartillögur sem er erfitt fyrir einhverja í ríkisstjórn að hafna. Oft er verið að reyna að beita breytingartillögum í pólitískum tilgangi, jafnvel þótt þær séu góðar. Það er reynt að finna samspil milli þessara þátta; að búa til góða breytingartillögu sem er erfitt fyrir ríkisstjórnina að hafna en um leið góð kerfislega séð og að sjálfsögðu góð pólitískt séð fyrir þá sem leggja hana fram.

Ég held að hv. þingmaður hafi komist að ákveðnum kjarna í kafla sínum um breytingartillögurnar og það samstarf sem vantar í því að vinna breytingartillögur með minni hlutanum til að komast frekar hjá því að við séum með pólitískar hártoganir og getum farið að tala um kerfin sem breytingarnar hafa áhrif á, þau áhrif sem breytingartillögurnar hafa á kerfin en ekki bara pólitískt séð. Við erum föst í vítahring sem einkennist af skorti á samstarfi af því að við tölum minna um kerfin og skilning okkar á kerfunum.

Mig langaði að halda aðeins áfram umræðunni um breytingartillögur til að athuga hvort við gætum komist að lausn sem er í áttina að meira samstarfi.