148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hér kemst hv. þingmaður að skemmtilegum kjarna máls. Það væri mjög gaman að ræða þetta mjög lengi. Mér fannst tilraun í meirihlutaleysi síðustu fjárlagaumræðu gefast afskaplega vel og má taka sem dæmi að þar fór þingið eftir gildandi fjármálastefnu þó svo að sú fjármálastefna hefði verið sett af annarri ríkisstjórn. Það kýs ný ríkisstjórn að gera ekki. Það hefði alveg mátt sjá fyrir sér í þeirri umræðu mikið ábyrgðarleysi grípa um sig og að flokkar hefðu vaðið fram með mjög bólgnar hugmyndir, en það varð ekki niðurstaðan. Það tókst held ég mjög vel að ná lendingu í þeirri fjárlagaumræðu með ábyrgum hætti. Ég held að ekki sjái mikinn mun á niðurstöðunni þar t.d. frá frumvarpi til fjárlaga í útgjaldaaukningu miðað við hefðbundnar breytingar í meðhöndlun meiri hluta hverju sinni.

Talandi um breytt pólitískt landslag með fleiri flokkum o.s.frv. þá fannst mér reynslan frá því fyrir ári síðan sýna okkur að minnihlutastjórnir gætu mjög vel starfað hér með þinginu. Það gefur þinginu meira vægi. Það þýðir að hlusta þarf mikið meira á tillögur meiri hlutans í því samhengi, ef það er minnihlutastjórn, en er það ekki allt í lagi? Það verður þá breiðari skírskotun í þinginu og vandaðri vinna sem liggur að baki en ekki einhver einstrengingsleg lína sem dregin er af meiri hluta hverju sinni.

Þegar við horfum á hvernig landslagið hefur breyst þá hefur flokkum fjölgað. Þrátt fyrir óskhyggju um að flokkar með fastar djúpar rætur fengju sterkari kosningu varð það ekki niðurstaðan, heldur fjölgaði flokkum enn frekar. Þá þurfum við að horfa til nágrannalanda okkar um það hvernig þau hafa unnið með slíkt pólitískt landslag, sem er mjög gjarnan í formi minnihlutastjórna.