148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að varasjóðum var sáralítið beitt í tíð fyrri ríkisstjórnar og augljóst að þar var verki ólokið við að ráðstafa af þeim. Ég stóð hins vegar sjálfur í þeirri meiningu, sitjandi við það borð, að bæði veikleikar og útgjaldaákvarðanir sem verið var að taka myndu ganga af varasjóði. Ég held að það sé, og það kom raunar skýrt fram í máli Ríkisendurskoðunar, hið eðlilega verklag, að ef ekki er hægt að grípa til annarra ráðstafana sé byrjað á að tæma varasjóði áður en komið er til þingsins að biðja um auknar fjárheimildir. Í máli Ríkisendurskoðunar kom fram nokkuð skýrt að þar gilti einu hvort um nýjar útgjaldaákvarðanir væri að ræða eða veikleika í forsendum fjárlaga. Það ætti að byrja á að tæma varasjóðina, auðvitað byrja á því að reyna að grípa til einhverra ráðstafana til að sporna gegn því en ef það dygði ekki til eða væri ekki hægt ætti að nýta varasjóðina fyrst væri síðan að koma til þingsins og sækja (Forseti hringir.) viðbótarheimildir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið móti núna í framhaldinu með ráðuneytunum, sér í lagi fjármálaráðuneyti, miklu skýrari (Forseti hringir.) reglur um hvernig skuli farið með varasjóðina og hvenær skuli ráðstafað inn á þá.