148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að þarna mætti bæta verulega upplýsingagjöf framkvæmdarvaldsins til þingsins. Ég held að það þurfi miklu reglubundnari upplýsingagjöf frá framkvæmdarvaldi um framkvæmd fjárlaga, þá veikleika sem þar eru að koma fram, þær ráðstafanir sem verið er að grípa til, m.a. ef gripið er til varasjóða eða annarra ráðstafana til að koma í veg fyrir framúrkeyrslu. Það ætti að gerast mun reglubundnar en einu sinni til tvisvar á ári. Ég veit að í því ráðuneyti sem ég sat í var mjög reglubundin yfirferð yfir hvernig framkvæmd fjárlaganna gengi fyrir sig og hvort komnir væru fram veikleikar á einstökum málefnasviðum eða ekki. Það er hægur vandi fyrir framkvæmdarvaldið að standa skil á slíkum skýrslum til fjárlaganefndar með mjög reglubundnum hætti, bæði til þess upplýsa um hvernig verið sé að ráðstafa varasjóðum, ef verið er að grípa til þeirra, eða hvernig framkvæmd fjárlaganna gengur að öðru leyti.