148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[15:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, gögnin liggja fyrir, dómur liggur fyrir um að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan dómara en það eru fleiri gögn sem eru að koma fram og á einhverjum tímapunkti myndi maður ætla að menn endurskoðuðu afstöðu sína til þess hvort dómsmálaráðherra geti setið áfram. Mér fannst ekkert í máli forsætisráðherra stangast á við það og það er kallað eftir að við fáum þessar upplýsingar og það sé umræða um þær.

Varðandi annað mál, því að þessi umræða gengur út á stöðuna í stjórnmálum í ársbyrjun og verkefnin fram undan, þá er eitt af stærstu verkefnunum að sjálfsögðu kjaramál. Margir kjarasamningar eru lausir og við stöndum frammi fyrir því að hundrað kjarasamningum, kjarasamningum 70% launafólks, þorra launafólks, gæti verið sagt upp í lok febrúar. Starfshópurinn á að skila af sér 10. febrúar. Gæti hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir farið betur yfir það hvernig málum er háttað? Mér finnst verkefnið ekki vera mjög vel skilgreint, ég heyri það ekki. Það er búið að vera að reyna að vinna í þessum málum og ná heildarsátt svo árum skiptir. Síðasta og þarsíðasta ríkisstjórn reyndu það (Forseti hringir.) og nú stöndum við frammi fyrir þessu eftir mjög skamman tíma. Hvernig sér forsætisráðherra í alvörunni að verkið geti klárast á þessum tíma? Mér finnst það því miður ekki líklegt, en ég vona það.