148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:52]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nýverið gaf hið sjálfstæða fjármálaráð út álit sitt á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og er stefnan sögð vera þensluhvetjandi, ógagnsæ og ósjálfbær. Hún er sögð vera aðhaldslítil, vera ábótavant og geta stuðlað að efnahagslegum óstöðugleika. Stefnan er sögð byggja á slökum greiningum og einsleitum spálíkönum og að engin áhersla sé lögð á félagslegan stöðugleika, eins og segir í áliti fjármálaráðs.

Í mínum bókum felur slík umsögn í sér falleinkunn. Í því sambandi eru hugsanlegar lækkanir á tekjuskatti gagnrýndar harðlega. Er slík lækkun talin geta ógnað stöðugleika. Með 1 prósentustigs lækkun verður ríkið af allt að 15 milljörðum kr., sem færi langleiðina að fjármagna útgjaldatillögur Samfylkingarinnar sem hún lagði fram við nýsamþykkt fjárlög.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig mun hann bregðast við þeirri falleinkunn sem hann og stefna hans fá? Ætlar hann (Forseti hringir.) að standa við yfirlýsingar sínar úr kosningabaráttunni um að lækka beri tekjuskattinn? Ef svo er, (Forseti hringir.) er hann þá ósammála hagfræðingunum um að slíkt væri óráð á þessum þenslutímum?