148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

eftirlitsskyld lyf.

[13:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi hert eftirlit með ávísunum svokallaðra eftirritunarskyldra lyfja og ráðstafanir sem því tengjast. Um er að ræða sérstaklega ávanabindandi sterk verkjalyf og ávanabindandi örvandi lyf. Í ágúst sl. boðaði Lyfjastofnun tillögur að hertum aðgerðum til að hamla misnotkun slíkra lyfja. Þessar aðgerðir fólu m.a. í sér auknar takmarkanir á ávísunum þeirra. Markmiðið með þessum tillögum sem eru enn í vinnslu hjá Lyfjastofnun var að draga úr heildarmagni lyfja í umferð og stemma stigu við misnotkun, sem er göfugt markmið í sjálfu sér. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort heildstæð áhrif slíkra takmarkana séu í skoðun hjá heilbrigðisyfirvöldum og þá sér í lagi gagnvart þeim einstaklingum sem eru veikir fyrir eða stríða við fíknivanda. Ástæðan er sú að árið 2016 var opnaður lyfjagagnagrunnur á grundvelli svipaðra sjónarmiða sem leiddi til þess að verð morfínlyfja á svörtum markaði hækkaði. Þrátt fyrir þá hækkun eru engin merki um að dregið hafi úr notkun umræddra lyfja heldur fór vandinn mögulega vaxandi samkvæmt upplýsingum frá nefndri Lyfjastofnun.

Ef maður trúir því að minni aðgangur að vímuefnum valdi sjálfkrafa minni vímuefnavanda virðist lógískt að takmarka aðgengi án heildstæðrar stefnumótunar en reynslan sýnir hins vegar þvert á móti, hæstv. ráðherra, að takmarkanir án slíkrar heildarsýnar geta leitt til hærra verðs, meiri hörku á svörtum markaði, ýtt undir afbrot, ýtt undir innflutning enn hættulegri efna, auk þess að draga úr öryggi þeirra sem þegar tilheyra illa settum jaðarhópum.

Auk þess að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort slík stefnumótun sé í gangi samhliða hertu boðuðu eftirliti með eftirritunarskyldum lyfjum vil ég spyrja hvort samráðsvettvangi hafi verið komið á fót eða hvort það sé stefnan og þá með fólki sem býr yfir reynslu og sérþekkingu á sviði skaðaminnkunar og hefur reynslu af því að vinna með nefndum jaðarhópum. Þar nefni ég t.d. aðstandendur verkefnisins Frú Ragnheiður.