148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Mér finnst nú leiðinlegt að eyðileggja stemninguna hérna, en mig langar að spyrja forseta út í póst sem þingflokksformenn fengu í gærkvöldi þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að afloknum óundirbúnum fyrirspurnum mun fjármála- og efnahagsráðherra mæla fyrir fjármálastefnu 2018–2022. Í framhaldi af umræðum um það mál á vettvangi þingflokksformanna í desember sl. þegar málið var lagt fram er það tillaga forseta …“

Það er verið að ræða ræðutíma og tilhögun umræðunnar um þetta dagskrármál. Nú er það þannig að það var ekki rætt og alls ekki útrætt í desember hvernig ætti að haga umræðunni um þetta mál. Ég vil hins vegar leyfa mér að þakka forseta fyrir að bæta við ræðutímann þessum litlu fimm mínútum. En það er þannig samkvæmt hefðinni í það minnsta að þingflokksformenn og forseti funda um dagskrá þingsins og hvernig fyrirkomulag er á henni. Ég hefði talið eðlilegt að um þetta hefði verið fundað.

Ég ætla því að leyfa mér í ljósi allra yfirlýsinga um ný vinnubrögð, hvernig eigi að lyfta Alþingi á hærra plan o.s.frv., allt þetta bull sem heyrist frá ríkisstjórninni, að spyrja hvort ekki sé tími til kominn að sýna hlutina í verki og geri ráð fyrir að þetta hafi verið mistök af hálfu forseta.

(Forseti (SJS): Forseti mun bregðast við þessu þegar umræðum um fundarstjórn forseta er lokið.)