148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi grunngildin má kannski segja að skjalið í heild sé einn samfelldur rökstuðningur fyrir því að sé gætt að öllum grunngildum, síðan fáum við álitsgerð fjármálaráðs sem tekur það til enn frekari umfjöllunar. Það má segja að í áliti fjármálaráðs komi fram ábendingar um að það mætti með tölulegum greiningum, maður gæti jafnvel séð fyrir sér einhverjar fráviksspár, kafa dýpra í að greina nákvæmlega áhrif stefnunnar á framvindu mála. En það er ein af þessum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum einhverja spá sem við setjum síðan fjármálastefnu ofan á, og þá þyrfti í raun og veru að gera nýja spá sem tæki tillit til þess hvaða áhrif stefnan hefur á framvindu mála.

Það er þarna sem við þurfum dálítið að horfast í augu við að stjórnkerfislegir innviðir, ef ég mætti koma með það nýyrði hér, eru ekki nægilega sterkir. Geta okkar til þess að vinna með okkar eigið þjóðhagslíkan og spágetu inn í framtíðina hefur bara einfaldlega ekki verið byggð markvisst upp. Við höfum fyrst og fremst treyst á getu Seðlabankans í þessu efni og síðan Hagstofuna. Ég er þeirrar skoðunar og hef reyndar beitt mér fyrir því á undanförnum árum að við þurfum að styrkja efnahagsskrifstofuna í fjármálaráðuneytinu og reyndar sömuleiðis tel ég upp að vissu marki í forsætisráðuneytinu til þess að ná lengra í þessu.

Varðandi langtímaskuldbindingarnar þá vísa ég til þeirra breytinga sem hafa orðið á A-deildinni sem hafa í raun og veru fleytt henni þannig inn í framtíðina að hún ætti að vera sjálfbær. (Forseti hringir.) En ég kann ekki að rekja það til fulls. Ég þarf bara að kynna mér það betur hvers vegna aðrar slíkar skuldbindingar hafa ekki orðið sjálfsagður hluti af áætluninni.