148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að hafa nokkur orð um fjármálastefnuna sem hæstv. fjármálaráðherra hefur fjallað aðeins um. Ég ætla að fara yfir þá gagnrýni sem ég tel að við þurfum að líta til og ekki þá síst þá gagnrýni sem svokallað fjármálaráð hefur gefið út. Það er mikilvægt að átta sig á hlutverki fjármálaráðs. Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og ráðinu er einfaldlega ætlað að leggja hlutlægt mat á það hvort fjármálastefnan og fjármálaáætlun, þegar hún kemur seinna í vor, fylgi þeim grunngildum sem lög um opinber fjármál kveða á um. Það eru þau grunngildi sem við erum öll sammála um, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Ég vakti máls á hluta gagnrýni fjármálaráðs á fjármálastefnuna í gær. Hæstv. ráðherra talaði um að það væri ekki góð greining hjá mér á álitinu en ég held að það væri einfaldlega sanngjarnara að segja að greining fjármálaráðs sé ekki góð fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Stefnan er nefnilega sögð vera þensluhvetjandi, hún er sögð vera ógagnsæ og ósjálfbær. Hún er einnig sög vera aðhaldslítil, að stefnumörkun sé ábótavant, það er beinlínis sagt í álitinu, og að hún geti stuðlað að óstöðugleika. Talað er um að greiningarnar séu slappar og spálíkönin einsleit. Það er meira að segja sérstaklega vakin athygli á því, sem er athyglisvert, komandi frá fyrirbæri eins og fjármálaráði, að engin áhersla er lögð á félagslegan stöðugleika. Hér ættu vinir mínir í Vinstri grænum að sperra eyrun því að þetta ræddum við í aðdraganda samþykktra fjárlaga, að ekki aðeins efnahagslegur stöðugleiki skiptir máli heldur líka félagslegur stöðugleiki. Það þarf að haldast í hendur. Við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á að við sjáum ekki pólitískan vilja til að efla félagslegan stöðugleika. Við höfum sömuleiðis áhyggjur af því að hér sé efnahagslegum stöðugleika hugsanlega stefnt í hættu.

Ég man þegar hæstv. fjármálaráðherra var kosinn á sama tíma og ég á þing fyrir 15 árum. Þá var mikið talað um það, og það hef ég heyrt allan minn pólitíska feril, hvað Sjálfstæðisflokkurinn legði mikla áherslu á aðhald og stöðugleika. Ég er löngu búinn að læra að það eru orðin tóm, þetta eru aðeins frasar. Ég man ítrekað eftir umræðum hér þar sem við í stjórnarandstöðu þess tíma gagnrýndum harðlega fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir lausatök í ríkisfjármálum, fyrir að taka vanhugsaðar ákvarðanir í efnahagsmálum.

Í upphafi máls míns ætla ég að vekja sérstaklega athygli á orðum ráðherrans áðan þegar hann fór að tala um nauðsyn þess að lækka skatta. Að sjálfsögðu getur verið mikilvægt að lækka skatta, en eins og hæstv. ráðherra nefndi er tímasetningin allt. Hann gat um, máli sínu til stuðnings, að hann hefði staðið fyrir lækkun skatta á tíma sem orsakaði ekki aukna þenslu en honum láðist að minnast á að það voru sérstakir tímar. Við vorum með mjög litla innflutta verðbólgu, það var sama sem engin verðbólga í Evrópu, vextir í Evrópu voru nánast núll, í sumum löndum voru þeir neikvæðir, við fengum eitt stykki makrílstofn sem synti inn í lögsögu okkar og svo stórjókst ferðamannastraumur til landsins. Þetta voru þær jákvæðu ytri aðstæður sem að sjálfsögðu hjálpuðu sveiflukenndu hagkerfi okkar. Eftir stendur að langflestir sérfræðingar, langflestir viðskiptafræðingar og hagfræðingar, segja að það sé óráð að lækka skatta í miklum mæli þegar það er þensla. Þetta með tímasetninguna er hárrétt hjá hæstv. ráðherra, tímasetningar skipta máli og auðvitað getur verið réttur tími til að lækka skatta, t.d. þegar við þurfum að örva hagkerfið, en í því þensluástandi sem við búum núna við er það ekki góð hagfræði og það er ekki góð pólitík. Við þurfum að vanda okkur hvað það varðar, sporin hræða.

Þessa dagana er búsáhaldabyltingin níu ára gömul. Af hverju var búsáhaldabylting? Af því að hér varð efnahagslegt hrun. Þess vegna þurfum við að læra af reynslunni. Af hvaða kaliberi var hrunið á sínum tíma? Förum í sögulega upprifjun og setjum hlutina samhengi. Ef gjaldþrot þessara þriggja stóru íslensku banka væru sett saman í eitt gjaldþrot væri það eins og þriðja stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna. Þetta hefði verið stærra gjaldþrot en Enron gekk í gegnum, sem er eitt frægasta gjaldþrot mannkynssögunnar, ef svo má segja. Það tap sem gjaldþrot íslensku bankanna orsakaði er um helmingur af Marshall-aðstoðinni. Allir hér í salnum og víðar vita að hvað Marshall-aðstoðin var og í því samhengi er ég ekki að tala um Marshall-aðstoðina til Íslands, ég er að tala um Marshall-aðstoð til Evrópu. Ef við núvirðum þá aðstoð sjáum við það að þær krónur sem töpuðust vegna hruns íslenska hagkerfisins og gjaldþrots bankanna þriggja er um helmingur af allri Marshall-aðstoðinni. Upphæðin sem tapaðist í hruninu var hærri en nemur allri erlendri aðstoð til Afríku, þar sem búa um 1,4 milljarðar. Sporin hræða því hvað þetta varðar.

Ég rifja þetta upp vegna þess að ein af meginniðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis var að í aðdraganda hrunsins hefði m.a. verið slæm hagstjórn. Einn af fyrstu punktunum sem rannsóknarnefnd Alþingis kemur með er stjórnvöld þess tíma lækkuðu skatta á röngum tíma. Þau helltu olíu á eld. Þetta skiptir máli, þess vegna er ég að brýna fyrir ráðherra að passa sig að fara ekki í skattalækkanir á þeim þenslutímum sem við erum á. Það er mikil þensla í samfélaginu, það var mikill hagvöxtur í fyrra, 6–7% hagvöxtur, sem er svona asískur hagvöxtur. Hagvöxtur er aðeins að minnka en hann er engu að síður mjög mikill og í því umhverfi er ekki gott að fara í stórvægilegar skattalækkanir. Það segi ég fullum fetum. Auðvitað veit ég að skattar eru ekkert vinsælir en við verðum líka að átta okkur á því hvað við fáum fyrir skattana. Skattar eru það gjald sem við greiðum til að lifa í siðuðu samfélagi, var einhvern tímann sagt. Á sama tíma og kallað er eftir auknum fjármunum í innviði ætti ekki að mínu mati að lækka skatta, en hér er ég að fókusera á það að hagfræðilega er ekki skynsamlegt að fara í þann leiðangur á þessum tímapunkti. Þau varnaðarorð má einmitt finna í áliti fjármálaráðs um fjármálastefnuna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Skattalækkun á tímum mikillar framleiðsluspennu getur vart talist framlag til stöðugleika í efnahagsmálum nema hún sé sett í samhengi við annað. Slíkt er ekki gert í stefnunni.“

Svo segir aðeins seinna í álitinu:

„Lækkun skatta við þessar aðstæður leiðir til aukinnar verðbólgu og er þar að auki þensluhvetjandi þ.e. ef önnur tekjuöflun er ekki aukin eða dregið úr útgjöldum hins opinbera á sama tíma. Stefnan útlistar engar slíkar aðgerðir.“

Þetta er sem sagt niðurstaða fjármálaráðs sem er að reyna að leggja hlutlægt mat á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og er einmitt að vara okkur við því að gera ekki mistök fortíðarinnar aftur. Hvað gerist ef við hellum olíu á eldinn og aukum þensluna, aukum framleiðsluspennuna? Það er bara tvennt sem gerist, vextir hækka því að ríkisfjármálin eru einn hluti af hagkerfinu og svo er það peningastefnan. Ef ríkisfjármálin klikka, sem þau gera því miður of oft, of mikil lausatök, of mikið agaleysi, þarf Seðlabankinn að grípa inn í. Og hver eru úrræði Seðlabankans? Það er vaxtastigið, vaxtavopnið, og ef við förum í þann leiðangur, af því að við trúum á þá möntru að við þurfum alltaf að lækka skatta eða að hægri pólitík okkar kalli á að skattalækkanir eigi alltaf rétt á sér, munu íslensk heimili borga brúsann, annars vegar með vaxtahækkun og hins vegar aukinni verðbólgu. Þetta gerist, hagfræði er engin geimvísindi og þetta er búið að segja áratugum saman. Það var einn stjórnmálaleiðtogi sem sagði að efnahagslögmálin giltu ekki á Íslandi. Auðvitað gilda sömu lögmál í hagkerfi á Íslandi og annars staðar. Þess vegna þurfum við að taka mark á sérfræðingum. Ég veit mætavel að hagfræðin er ekki raunvísindi, þetta eru félagsvísindi og það er hægt að finna hagfræðinga sem eru algjörlega ósammála en hagfræðingar eru engu að síður furðumikið sammála, m.a. um þetta atriði. Lækkum ekki skatta, a.m.k. ekki í einhverjum mæli, á tímum framleiðsluspennu og þenslu. Það er núna. Þess vegna þurfum við að passa okkur. Fyrir utan loforð okkar allra um að við ætluðum ekki að draga úr neinum ríkisútgjöldum. Eins og ég gat um í ræðu minni í gær ætlaði enginn flokkur að draga úr ríkisútgjöldum til að slá á þensluna, en það er að sjálfsögðu líka hægt. Við getum slegið á þensluna með því að draga úr ríkisútgjöldum eða auka tekjurnar. Þessi ríkisstjórn gerir hvorugt. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af þeirri hagstjórn sem blasir við í þessari stefnu og líka þeirri pólitík sem finna má í stjórnarsáttmálanum.

Förum aðeins frekar inn í þætti þessarar stefnu. Það er mjög jákvætt að við erum nú farin að starfa eftir nýjum lögum um opinber fjármál. Við tókumst talsvert á um það þegar við ræddum um frumvarp til fjáraukalaga. Við sjáum enn þá allt of háa fjárauka og þess er skemmst að minnast að fjáraukalög síðasta árs voru um 25 milljarðar. Ég held að við séum flest sammála um það að við viljum aldrei sjá slík fjáraukalög aftur. Ráðherra gat um í ræðu sinni áðan að svona spár og svona stefna til fimm ára væri ákveðin nálgun á veruleikann. Burt séð frá því held ég að bæði fjármálaráðuneytið og allir sem að málinu koma geti staðið sig betur þegar kemur að áætlanagerð. Það munar svo miklu ef við lítum á hin Norðurlöndin, þau nota t.d. í talsvert minna mæli fjáraukalög, þau nota fjárlög. Þau glíma auðvitað við sömu sveiflur og við, ættu að gera það í raun og veru, þannig að ég kalla eftir bættri áætlanagerð, aukinni fagmennsku og auknum fyrirsjáanleika. Það hefur svolítið vantað. Það er ákveðið agaleysi og það er svo sem ekki bara bundið við þessa ríkisstjórn. Ég ætla ekki að kenna hæstv. fjármálaráðherra um það. Þetta er gamall vandi sem við þurfum að glíma við.

Við þurfum líka að efla rannsóknir. Eins og hér er m.a. nefnt í áliti fjármálaráðs má dýpka aðeins spálíkönin, hafa þau fjölbreytilegri, setja meiri kraft í greiningarnar og annað slíkt. Í því sambandi væri hægt að rifja upp gott þingmál um að setja aftur á fót Þjóðhagsstofnun. Hún var á sínum tíma lögð niður í einhverri bræði fyrirrennara hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að mikil vöntun sé á stofnun eins og Þjóðhagsstofnun sem er mikilvægt greiningarfyrirbæri eins og það var á sínum tíma. Samhliða því held ég að við á Alþingi þyrftum að hafa miklu betri aðgang að hagrænum greiningum og hagdeild. Það ætti að vera hægur leikur fyrir okkur, verandi með fjárveitingavaldið, að efla svolítið Alþingi á þessu sviði. Þá held ég líka að gagnrýni okkar gagnvart fjármálaráðherra og ráðherrum almennt batni. Ég varpa þeirri áskorun fram í þingsal: Af hverju eflum við ekki þá þjónustu sem Alþingi býr við þegar kemur að hagrænum greiningum og öðru slíku?

Hér er verk að vinna að mati flestra sem skoða þetta. En við þurfum að einhenda okkur í þetta, þetta er ekkert hægri/vinstri mál, þetta einfaldlega að gera umræðuna dýpri og faglegri.

Það eru nokkur atriði í lokin sem mig langar að nefna sem fjármálaráð flaggar, ef svo má segja. Það hefur áhyggjur af því að aðhaldsstigið sé ekki nóg. Þetta tengist því sem ég sagði rétt áðan um skattana. Fjármálaráð segir t.d., með leyfi forseta:

„Því má velta fyrir sér hvort lending hagkerfisins verði jafn mjúk og gert er ráð fyrir í þeirri spá sem stefnan tekur mið af. Mjúkar lendingar eru undantekning fremur en regla í íslensku efnahagslífi og því telur fjármálaráð, eins og fram kom að ofan, að æskilegt væri að í stefnunni væri að finna greiningu á afleiðingum þess ef aðstæður yrðu aðrar … “

Seinna í álitinu segir:

„Fjármálaráð vill ítreka ábendingar sínar sem fram komu í fyrri álitsgerðum að afgangur af rekstri hins opinbera endurspeglar ekki endilega aðhaldsstig opinberra fjármála.“

Það er ákveðnir þættir sem þeir draga þarna fram og fara dýpra í það að hugsanlega sé að draga úr aðhaldsstiginu, þrátt fyrir orð hæstv. fjármálaráðherra áðan.

Aftur aðeins lengra inn í álitið, með leyfi forseta:

„Þar sagði að svo virtist sem stjórnvöld væru að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa og áfram yrði slakað á aðhaldsstiginu. Nú virðist sem verið sé að gefa aftur í á sama tíma og óvissan hefur aukist.“

Þetta er auðvitað þvert á það sem hæstv. fjármálaráðherra er alltaf að tala um, að hann sé málsvari aðhalds og stöðugleika. Við sjáum það svart á hvítu. Þetta er svo sem ekki ný gagnrýni á hagstjórn Sjálfstæðismanna að mínu mati.

Hér er sömuleiðis talað um að stefnumörkuninni sé einfaldlega ábótavant.

Nú sé ég að tími minn er að renna út. Við fáum þingsályktunartillöguna að sjálfsögðu til okkar í fjárlaganefnd þannig að það er einstakt tækifæri fyrir okkur í nefndinni til að fara aðeins dýpra í þetta mál og skoða það því að almennt séð á fjármálastefnan ekki að breytast. Þess vegna er það svolítið gagnrýnisvert að við fáum fjármálastefnu sem fær falleinkunn frá sjálfstæðum og hlutlausum aðila eins og fjármálaráði. Stefnan á almennt séð ekki að breytast. Hún getur breyst í undantekningartilvikum en almennt séð á hún ekki að gera það. Þess vegna verð ég að lýsa yfir talsverðri óánægju með þetta plagg og hefði einmitt búist við því að við hefðum fengið betra plagg, sérstaklega í ljósi fyrri gagnrýni frá fjármálaráði á fyrri fjármálastefnu.