148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, tillögu sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram samhliða framlagningu fjárlagafrumvarps eins og lög um opinber fjármál kveða á um og er verið að mæla fyrir nú, þ.e. fjármálastefnunni sem er til umræðu.

Ég ætla, virðulegi forseti, að ræða um þessa þingsályktunartillögu meira út frá formi en efni í fyrri umræðu og ég segi það vegna þess að það er sérstakt að áður en tillagan fer til umsagnar og kemur til umfjöllunar í nefnd þá liggur fyrir umsögn fjármálaráðs. Þær aðstæður geta vissulega skapast og eru í samræmi við lög og ekkert óeðlilegt við það eins og ég segi enda fyllilega í samræmi við lög um opinber fjármál þar sem segir að fjármálaráð skuli senda Alþingi umsögn sína um stefnuna eigi síðar en tveim vikum eftir að tillagan hefur verið lögð fram á Alþingi og hið sama gildir reyndar um fjármálaáætlun.

Þetta er auðvitað eilítið sérstakt þótt ég vilji ítreka að margar ábendingar í umsögn fjármálaráðs eru mjög gagnlegar eins og komið hefur fram í umræðunni, en það er auðvitað ekki fyrr en málið kemur til nefndar að kostur gefst á því að fá fjármálaráð fyrir hv. fjárlaganefnd þar sem það fylgir eftir umsögn sinni. Ég ætla því að geyma þá freistingu að miða þessa yfirferð mína við þá umsögn þótt ég hafi fullan skilning á því að hún liggi til grundvallar í umræðu um málið og umfjöllun fjölmiðla.

Þá blandaðist umræðan um stefnumörkun sömuleiðis að einhverju leyti við umræðu um frumvarp til fjárlaga sem Alþingi afgreiddi fyrir áramót. Þess vegna má segja, virðulegi forseti, að umræðan um stefnuna sé í þroskaðri farvegi nú þegar en við eigum kannski öllu jafnan að venjast í fyrri umræðu. Ég ætla auðvitað ekki að leggja neitt mat á það hvort það væri nokkuð verra ef öðruvísi væri farið, þvert á móti. Ég held að þetta sé ágætt fyrir umræðuna.

Eins og ég sagði ætla ég að ræða þetta meira út frá forminu. Fyrst vil ég segja að þegar við ræðum um hagstjórn þá er í grófri greiningu um að ræða tvær stefnur, það er annars vegar peningastefna og hins vegar stefna í ríkisfjármálum eins og við ræðum hér og nú. Peningastefnan er eins og við þekkjum á hendi Seðlabanka Íslands og skal bankinn m.a. lögum samkvæmt stuðla að framgangi ríkisstjórnar í efnahagsmálum svo fremi að gangi ekki gegn meginmarkmiði um stöðugt verðlag. Það er meginmarkmiðið sem við ræðum svo oft hér.

Lög um opinber fjármál er sú lagaumgjörð sem hefur samkvæmt 1. gr. laganna það markmið að stuðla að góðri hagstjórn og er sá rammi sem við höfum um ríkisfjármálastefnu og áætlanagerð, framkvæmd og reikningsskil opinberra fjármála. Í II. kafla þessara laga er fjallað ítarlega um verklag þeirrar stefnu sem við ræðum hér. Í 4. gr. laganna er fjallað um fjármálastefnuna og kveðið á um hvenær ríkisstjórn beri að leggja fram slíka stefnu en það er svo fljótt sem auðið er eftir að ríkisstjórn er mynduð eða eigi síðar en samhliða fjárlagafrumvarpi sem var raunin í þetta skiptið eins og við öll vitum. Slík stefna skal fela í sér umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga opinberra aðila í heild og hins opinbera til ekki skemmri tíma en fimm ára. Markmið stefnunnar skulu sett fram sem hlutföll af vergri landsframleiðslu eins og sjá má í þeim stefnumiðum sem sett eru fram í töflu fremst í þingsályktunartillögunni. Þá skal fjármálastefnan enn fremur byggjast á grunngildum 6. gr. laganna um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi og skilyrðum 7. gr. um þróun afkomu og skulda.

Það er mikilvægt met ég, virðulegi forseti, að við ræðum stefnuna í þessu samhengi, rammanum um opinber fjármál, efnahagslegar forsendur, samspil við peningastefnu og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Að auki liggur auðvitað fyrir stjórnarsáttmáli þar sem við getum séð fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar, sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um samstarfið og þar fá efnahagsmálin og hagstjórnin sinn sess enda mikilvægt og viðurkennt að viðhalda efnahagslegu jafnvægi og varðveita þann árangur sem náðst hefur á undangengnum misserum.

Þess vegna er þessi stefna forsenda fyrir því að hæstv. ríkisstjórn efni þau áform sem birtast í sáttmálanum. Jafnvægi er algjört lykilorð og er rauður þráður bæði í stjórnarsáttmálanum og í þeirri stefnu sem við fjöllum um hér þar sem gætt er að jafnvægi útgjalda og tekjuöflunar hins opinbera, hugað að fjárfestingu innviða til að mæta uppsafnaðri þörf; í senn félagslegum stuðningi, auknum stuðningi við heilbrigðiskerfið og vegna mannvirkja, þ.e. innviðum sem leggja grunn að uppbyggingu og framgangi atvinnuvega, ekki síst ferðaþjónustu sem er á viðkvæmu stigi og í örum vexti.

Jafnvægi speglast líka í því að þegar við skoðum þau markmið sem óhjákvæmilega eru lykilmálin í slíkri stefnu sem við síðan útfærum í ríkisfjármálaáætlun sem kemur til umfjöllunar á þessu vori. Það er mikilvægt að horfa til þess að stefnt er að því að skila jákvæðri afkomu, heildarafkomu um 1,4%, sveitarfélögin þar með talin, af vergri landsframleiðslu. Þá er stefnt að því að greiða niður skuldir áfram og lækka vaxtabyrði til framtíðar.

Að teknu tilliti til allra þessara þátta er umfangið í þessari umræðu töluvert en nauðsynlegt. Það er nauðsynlegur umræðugrundvöllur, tel ég, enda er slík umræða þörf og mikilvæg þegar við horfum á þann kúrs sem hæstv. ríkisstjórn setur.

Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að við skoðum þessa stefnu, tala nú ekki um hér í fyrri umr., í tengslum við þá ríkisfjármálaáætlun sem fram undan er og er útfærsla á þessari stefnu, enda skal þessi stefna samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga um opinber fjármál lögð til grundvallar þeirri áætlun sem við munum fjalla um í vor. Það verður nánari birtingarmynd á þeirri stefnu sem við ræðum nú.

Hæstv. ríkisstjórn leggur upp með að byggja upp þróttmikið efnahagslíf sem undirstöðu félagslegs stöðugleika, til þess að auka hagsæld og bæta lífsgæði. Til þess þarf traustar undirstöður ríkisfjármála samhliða endurskoðun á ramma peningastefnunnar sem hefur verið í gangi og sér nú fyrir endann á. Þá blasir það við að samstaða á vinnumarkaði um raunverulegar kjarabætur er algjör lykilforsenda þess að viðhalda jafnvægi og stöðugu verðlagi og lægri vöxtum þannig að allt heldur þetta hvað í annað og á það hefur hæstv. ríkisstjórn lagt áherslu á í upphafi og hefur þegar boðað samráð við alla aðila vinnumarkaðar. Þar hefur hæstv. ríkisstjórn lagt áherslu á sem innlegg í þær viðræður að lækka tekjuskatt í neðra skattþrepi og lækkun tryggingagjalds á kjörtímabilinu.

Þær forsendur sem liggja til grundvallar þessari stefnu og við köllum efnahagsspár gera ráð fyrir dvínandi hagvexti á komandi árum. Í því ljósi má segja að sé skynsamlegt að nýta afgang að hluta til til uppbyggingar og fjárfestinga, en um leið er mikilvægt að gæta að því að ná niður vaxtabyrði og auka þannig fjárfestingargetuna hægt inn í framtíðina og stuðla að langtímajafnvægi.

Útgjaldavöxtur undangenginna missera hefur að hluta til verið vegna bættra launakjara, en auðvitað hafa útgjöld til viðamestu málaflokka aukist og þar horfum við sérstaklega til heilbrigðis- og velferðarmála.

Það er auðvitað viðvarandi verkefni í ríkisrekstri að samhliða því að vinna að bættum lífskjörum og tryggja aukinn kaupmátt að forgangsraða með virkum hætti til þeirra málaflokka þar sem þörfin er mest og til þess þarf stöðuga og kerfisbundna greiningu á útgjöldum, endurmat á slíkri greiningu og eftirlit. Í því efni er rétt að benda á sérstakt átak sem nefnt er Betri rekstur og er til þess fallið að styðja og efla umbóta- og hagræðingarstarf í opinberum rekstri. Það er viðvarandi verkefni, en auvitað leiðir það hugann að því umhverfi sem við höfum búið við þann tíma frá því lög um opinber fjármál tóku hér gildi. Þau lög voru beinlínis sett með áherslu á langtímahugsun, stöðugleika og aga við framkvæmd fjárlaga og bætt reikningsskil. Lagaumgjörðin er sett með það að markmiði að treysta hagstjórn, efnahagsmál og fjármál opinberra aðila og treysta jafnframt aðkomu Alþingis að því að setja markmið í ríkisfjármálum og með mun ítarlegri ákvæðum um það hvernig skuli staðið að stefnumörkun eins og þeirri sem við ræðum hér og áætlanagerð.

Á þessum tíma, virðulegi forseti, á liðlega tveimur árum frá því lögin tóku gildi höfum við kosið þrisvar sinnum. Hér erum við því að taka til umfjöllunar þriðju stefnuna til fimm ára með þeim pólitísku áherslum sem fylgja slíkri stefnu og tilheyrandi áherslubreytingum. Það má því kannski segja að við höfum ekki komist almennilega í gang með lögin eða þá umgjörð sem lögunum er ætlað að treysta. Hér birtist kannski hvað harkalegast sá pólitíski óstöðugleiki sem oft er rætt um.

Allt að einu er auðvitað mikilvægt eins og nefnt er í lokaorðum greinargerðar að vinna slíkri stefnu trúverðugleika. Það gerist ekki í mínum huga öðruvísi en svo að útfærsla stefnunnar og framkvæmd sé í takti við þau markmið sem birtast í stefnunni. Þangað höfum við raunverulega ekki náð enn sem komið er í þessu umhverfi í þessu formi og því hefur ekki reynt almennilega á þá umgjörð eða þá stefnu sem ríkisstjórnir síðustu tveggja ára hafa sett fram. Ég segi það hér, virðulegi forseti: Á það mun vonandi reyna.

Hv. fjárlaganefnd mun nú taka málið til sín milli umræðna. Ég met hlutverk fjármálaráðs afar mikils í þessu stefnumörkunarferli þar sem við fáum álit frá ráði sem er sjálfstætt í sínum störfum og hefur auk þess það hlutverk samkvæmt 13. gr. laganna að leggja sjálfstætt mat á það hvort stefna og áætlun í kjölfarið fylgi grunngildum 6. gr. og skilyrðum 7. gr. og að sama skapi gefur það umræðunni aukið vægi sem maður verður var við hér, bæði nú í fyrri umr. og svo í umfjöllun fjölmiðla.

Hv. fjárlaganefnd mun nú gefast tækifæri á að fara yfir helstu ábendingar sem birtast í áliti ráðsins auk annarra umsagna sem munu berast.

Ég vil í þessu samhengi draga fram ítrekaða ábendingu fjármálaráðs í fyrri álitsgerðum um nauðsyn samspils spágerðar og ferlis stefnumörkunar. Þar bendir fjármálaráð á að við gerð fjármálastefnu á sér stað samspil stjórnsýslu sem útfærir stefnuna og stjórnmálanna sem leggja línurnar. Eða eins og fram kemur á bls. 10 í áliti fjármálaráðs „þá snýst stefnumörkunin þannig að miklu leyti um samræðu stjórnmála og stjórnsýslu um markmið, leiðir og áhrif hennar“. Þess vegna er þetta samtal afar mikilvægt.