148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Innviðir á Íslandi drabbast niður. Upp á þetta höfum við horft undanfarin ár og beðið færis að bæta úr. Nú er kominn tíminn og ekki eftir neinu að bíða, eða hvað?

Ný ríkisstjórn hafði uppi hástemmdar yfirlýsingar og fyrirheit í sínum stjórnarsáttmála. En þar eru orðin tóm og svör og viðbrögð óskýr. Það væri nær að við heyrðum svolítið garg í þessa átt, svo ég noti orðfæri frá umræðu gærdagsins. Vetur konungur lætur að sér kveða og við erum rækilega minnt á hvar við erum í sveit sett á hnettinum. Samgöngur ganga úr skorðum og heilu byggðarlögin búa við einangrun dögum saman.

Við breytum ekki legu landsins en vont er að mikilvæg mannvirki eru úr sér gengin fyrir. Umferðarþyngstu vegirnir svara með engu móti kröfum vegna álags, eru orðnir hættulegir og kosta mannslíf sem eru dýrmæt og aldrei metin til fjár.

En það er einmitt það sem stendur í okkur, peningar. Það vantar peninga til að bæta vegi, brýr, flugvelli og hafnir. Tillögur komu fram hjá síðustu ríkisstjórn um að taka enn frekari gjöld af ökutækjum umfram þá mörgu milljarða sem bifreiðareigendur hafa greitt með ýmsu móti í gegnum tíðina. Frá því er horfið í bili.

Málið er brýnt, þolir ekki bið. Þetta er umfjöllunarefni í samfélaginu daglega um allt land. Reykjanesbraut, Austurland, Vestfirðir, í dag er það Kjalarnes. Það þarf mikið átak og tugi milljarða til að bæta úr. Fram kom í fjölmiðlum í vikunni að gríðarlegt fé lífeyrissjóða sé bundið í innlendum áhætturekstri, til dæmis matvöru-, trygginga- og símafyrirtækjum sem talið er varhugavert til lengri tíma litið. Nú er spurt, og sennilega ekki í fyrsta sinn: Væri ekki ráð fyrir stjórnvöld að huga alvarlega að samningum við lífeyrissjóðina um þátttöku í þessu stóra átaki? Búa þannig í haginn fyrir okkur öll, mjaka sameiginlegum peningum okkar allra í góða vinnu. Hér getur verið um að ræða örugga og ásættanlega ávöxtun fyrir sjóðina og hagkvæma leið fyrir ríkissjóð og við græðum öll hraðar saman.