148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt áhugavert í gangi í störfum þingsins þessa dagana og það er leiðinlegt að þurfa að velja eitt umræðuefni umfram annað. Ég myndi vilja fjalla um þingsályktunartillögu um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum, breytingar á kosningalögum eða rafræn fasteignaviðskipti. En eitt mál stendur ofar öðrum hér á þingi í umfangi og alvarleika, það er augljóslega mál dómsmálaráðherra. Öll gögn málsins sem hafa birst okkur að undanförnu benda til þess að dómsmálaráðherra hafi farið gegn öllum ráðleggingum, gegn öllum ábendingum og eins og dómur Hæstaréttar segir: Gegn lögum.

Óhjákvæmileg afleiðing af þessari stöðu er að ráðherra virðist hafa beitt geðþóttavaldi þegar hún tók ákvörðun um skipan dómara við nýjan Landsrétt. Ráðherra er bara ósammála öllum; dómi, álitum og ábendingum sem segja að hún hafi tekið ranga ákvörðun. Þetta er afleiðing þeirrar tilhneigingar að vísa í öllu til valds ráðherra, sem ég hef á tilfinningunni að hafi verið gegnumgangandi í lagasetningu á undanförnum árum. Það býr einfaldlega til möguleikann á geðþóttaákvörðunum, möguleikann á einræði. Ég hefði haldið að við værum með alls konar varnagla í kerfinu okkar; stjórnsýslulög, siðareglur og sannfæringu þingmanna á Alþingi. En eins og kemur skýrt fram í máli formanns Framsóknarflokksins og þingflokksformanns Vinstri grænna ber hver ráðherra bara ábyrgð á sínum málaflokki og hver flokkur ber bara ábyrgð á sínum ráðherrum og þingmenn samstarfsflokkanna hafa ekkert um aðra ráðherra að segja. Ég vil meina að sú afstaða sé ábyrgðarleysi og sé í áttina að reynslu minni af hinum þöglu áhorfendum eineltis. Það eina sem þarf til að hið illa sigri er að góðir geri ekki neitt. Þeir sem gátu stöðvað ofbeldið gerðu það ekki.