148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég flutti ræðu á sínum tíma um tölvuöryggi og að það hefði aldrei verið verra en þá. Það hafði aldrei verið verra þá og í dag hefur það aldrei verið verra en í dag.

Í upphafi árs uppgötvuðust öryggisgallar í örgjörvum meira eða minna allra tölva í heiminum, það skiptir ekki máli hvort maður á Mac eða Windows eða Linux. Þetta eru mjög alvarlegir gallar og þeir munu hafa mjög neikvæð og langvarandi áhrif á tölvuöryggi í heiminum.

Í ljósi þess er það sérstakt fagnaðarefni að við förum brátt að ræða upptöku nýrra laga um persónuvernd, sem kominn er tími til. Það er kominn tími til vegna þess að við höfum sem samfélag safnað allt of miklum upplýsingum og farið allt of óvarlega með þær. Það verður ekkert auðveldara í framtíðinni nema ef við tökum okkur á. Mér sýnist heimurinn vera að gera það og því hlakka ég til að ræða það mál þegar það kemur inn á þing.

Ég heyri strax áhyggjur frá lögaðilum um að þær breytingar verði flóknar og dýrar. Það er bæði gleðiefni og áhyggjuefni því að ef svo væri ekki væri þetta ekki nóg. Eins og ég segi er búið að vera að safna upplýsingum. Ég þekki það sem forritari úr tölvugeiranum að við söfnum ofboðslega miklum upplýsingum og gerum það oft að ástæðulausu, svolítið hugsunarlaust. Það hefur verið lenskan lengst af eftir því sem tölvutækni hefur fleygt fram. Núna verðum við að endurskoða það verklag alveg niður í kjölinn, við verðum að fara að taka það alvarlega, ekki bara við tæknimenn heldur líka almenningur og fólk sem rekur fyrirtæki og safnar upplýsingum og hefur gagn af að safna upplýsingum og nota þær. Við eigum ekki að gera það nema við höfum sýnilega ástæðu til og við verðum að fara varlega með upplýsingarnar.

Það eru ákveðnar gleðifregnir að fólki finnist þetta flókið og dýrt, en hins vegar verðum við líka að hafa í huga að þetta má ekki vera það flókið og það dýrt að það verði óraunhæft. Það þurfa að vera raunhæfar reglur til að við förum eftir þeim.