148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi skýrslubeiðni verulega vanhugsuð. Það er í fyrsta lagi svo að óeðlilegt er að fela ráðuneyti að segja þinginu hvernig ábendingar sem fram komu í rannsóknarskýrslu, sem ein og sér beinist ekki að einhverju tilteknu ráðuneyti heldur er almennar ábendingar víða út í samfélagið, hafi gengið eftir og hvernig menn hafi fylgt eftir þeim ábendingum.

Í því sambandi er ágætt að rifja upp þingsályktun Alþingis um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 þar sem er í mörgum liðum rakið hvernig rétt sé að breyta stjórnarskrá, þingsköpum Alþingis, lögum um ráðherraábyrgð, lögum um Stjórnarráðið, löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði o.s.frv., alls í 12 liðum, og síðan er sérstaklega hnykkt á því í þriðja kafla þingsályktunarinnar að nefnd á vegum Alþingis skuli hafa eftirlit með úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í skýrslunni.

Að koma mörgum árum (Forseti hringir.) síðar, átta árum, og leggja til að fjármálaráðuneytinu sé falið að taka saman ábendingar, sem gæti orðið margra mánaða eða jafnvel ára vinna, án þess að nokkurt kostnaðarmat hafi verið lagt fram, mun einfaldlega ekki ganga. (Forseti hringir.) Ég verð að leggjast gegn skýrslubeiðninni.