148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já. Ég skil það ósköp vel að það geta verið sértækar aðstæður. Lög mega aldrei vera þannig að þau komi einhverjum sérstaklega illa sem þarf á góðri þjónustu og aðstoð að halda. Almennt held ég reyndar að það sé barninu fyrir bestu, ef þess er einhver kostur, að það sé í samneyti við báða foreldra sína. Ég held að ef verið væri að mæta fáum sérstökum tilfellum með því að opna alveg á þetta myndi það leiða til verri niðurstöðu almennt. Best væri auðvitað að setja það til velferðarnefndar að hafa einhvers konar ákvæði um að hægt væri að skjóta til Fæðingarorlofssjóðs eða einhverra ósk eða umsókn um slíkt þannig að hægt væri að koma til móts við þessi sjónarmið sem hv. þingmaður talar réttilega fyrir.