148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að skoða nýleg dæmi um þær viðvaranir sem hafa komið fram í tengslum við umræðuna um borgaralaun. Þar má t.d. nefna fyrirtækið hjá Amazon, Amazon Go, þar sem er komin verslun sem er ekki með neinum starfsmönnum. Þar tekur fólk bara vörur í hillunni og labbar út og fær rukkun í símann sinn eða á Amazon-reikning sinn. Það gerist sjálfkrafa.

Það er vert að huga einmitt að tækniframförum og hraða þeirra. Byrjum t.d. á prentvélinni 1440 sem er upphafið að iðnbyltingum eins og þær gerðust. 60 árum seinna var prentvélin orðin nokkuð útbreidd um Vestur-Evrópu. Um það bil 200 árum seinna er prentvélin komin í almenna notkun úti um allan heim. Fjöldi bóka sem er prentaður margfaldast í kjölfarið. En það tekur þessi 200 ár fyrir þessa nýju tæknibyltingu að breiðast út um allan heim. Ekki hengja mig ef þið eruð sagnfræðingar en þetta eru um það bil tölur eftir stutta uppflettingu.

Spólum fram til nútímans. Fyrsti snjallsíminn: 2000. Það eru einhverjar vangaveltur um að það hafi verið aðeins fyrr, en 2007 kemur i-síminn. Við þekkjum alveg útbreiðslu snjallsímans, hvernig hún hefur orðið gríðarlega mikil og gríðarlega hratt. Sjö ár frá fyrsta snjallsímanum þangað til hann komst í almenna útbreiðslu. Sjö ár miðað við 60 ár og upp í 200 ár fyrir nokkrum öldum síðan.

Tækniframfarirnar sem við upplifum gerast ekki lengur á áratugum, ekki á mannsævi heldur bara rétt innan áratugar. Heimurinn sem við fæðumst inn í nú er örugglega ekki heimurinn sem við deyjum frá. Það er mjög nýtilkomið í mannkynssögunni. Hingað til hefur maðurinn bara einfaldlega lifað og dáið í sama heimi. Það er ekki satt lengur. Við þurfum að hugsa um hraða tækniframfara og þau áhrif sem þær hafa á samfélagið. Tækniframfarirnar gerast svo hratt að við höfum ekki í við þær.

Þess vegna er þeim mun mikilvægara að horfa aðeins fram á veginn og sjá hvað mun mögulega koma til að vera pínulítið viðbúin. Ég segi t.d. um þessa verslun, Amazon Go, að það eru ekki bara sjö ár þangað til að þessi tækni verður orðin miklu almennari. Ég ætla spá því að það verði fyrr vegna þess að tækniframfarirnar gerast hraðar. Það verður ekki bara innan almennra matvöruverslana, þessi tækni verður miklu almennari í notkun og mun breiðast út til fleiri tegunda verslana, fyrirtækja og þjónustu.

Ég nefni sem dæmi að núna búum við við nokkurs konar „artificial narrow intelligence“ eða veika gervigreind. Það er gervigreind sem er sérhæfð á ákveðnum sviðum. Kann að spila skák, kann að spila Go, en kann kannski ekki hvort tveggja og getur kannski bara þekkt hunda í myndgreiningu eða er orðin aðeins almennari en það. Þróunin frá þeirri gervigreind yfir í almenna gervigreind, svokallaði AGI eða „artificial general intelligence“ er eitthvað sem við erum mögulega að upplifa núna. Öll fræðin hvað það varðar segja okkur að sú tegund gervigreindar, almenn gervigreind, fari fram hjá okkur án þess að við höfum tekið eftir því, því að það sem kemur á eftir henni, vél hennar, er ofurgervigreind, „artificial superintelligence“. Það er gervigreind sem getur búið til og unnið verkefni sem okkur hefur ekki einu sinni dottið í hug.

Þetta er kannski ógnvænlegur heimur fyrir einhver okkar, líka mig, því að maður veit ekki hvað kemur í framtíðinni. Við höfum í kvikmyndum prófað að fara aftur til fortíðar eða framtíðar og þar er okkur sýndur heimur sem við könnumst við en það kemur okkur samt á óvart hversu frábrugðinn hann er okkar heimi þrátt fyrir ekki svo langan tíma. Kannski voru það bara foreldrar okkar eða afi og amma sem voru uppi á þessum tíma. Það er ekki svo langt síðan villta vestrið var og hét. Það er miklu styttra þar til heimurinn verður allt öðruvísi en hann er núna miðað við hversu langt er liðið frá tíma villta vestursins. Það er dálítið magnað að hugsa til þess. Það er því ekki seinna vænna að fara að huga að því að prófa borgaralaun eins og þjóðir úti um allan heim eru að gera.

Þá er gott að minnast á að á nokkrum sviðum hafa komið fram tillögur um borgaralaun. Hjá samráðsvettvangi um aukna hagsæld var t.d. verið að stinga upp á útgreiddum persónuafslætti sem nokkrir flokkar hér á þingi lögðu til fyrir síðustu kosningar. Það eru borgaralaun. Þetta er ekki byltingarkenndara en svo að persónuafsláttur, sem við þekkjum mjög vel, er einmitt skilyrðislaus grunnframfærsla, nema hvað núna erum við með eitt skilyrði, maður verður að greiða tekjuskatt. Ef maður greiðir ekki nægilega mikinn tekjuskatt fellur ónýttur persónuafsláttur niður.

Ég var með fyrirspurn fyrir nokkrum þingum síðan um hversu mikill persónuafsláttur félli niður um hver áramót. Það voru um 12 milljarðar. Helmingurinn af þeirri upphæð fer til ungs fólks, aðallega 16–20 ára, sem er yfirleitt í skóla og minna í vinnu. Það sem er áhugavert við þennan aldur og í raun yngra fólk sem er ekki í vinnu og er í skóla er að persónuafslátturinn eins og hann er núna er mjög svipaður og full námslán hjá LÍN ef maður býr í foreldrahúsum, það munar um einum mánuði þar á yfir árstímabilið. Ef við værum í staðinn með útgreiddan persónuafslátt þar sem allur persónuafsláttur sem þú færð yfir árið færi bara í vasa þinn í staðinn fyrir LÍN kæmi maður út á sama stað eða svo til. Það er dálítið áhugaverð hugsun.

Hugsum þetta þá sem svo: Það er þokkalega mikil atvinnuþátttaka hjá framhaldsskólanemum, í verslunum og ýmsu slíku, sem tekur tvímælalaust athygli frá náminu. Og við erum með hátt brottfall. Atvinnuþátttakan hefur vafalaust áhrif á brottfall eins og kom fram í framsöguræðunni áðan. Við myndum þannig vera með miklu skilvirkara framhaldsskólakerfi. Við myndum skila miklu öflugri nemendum út í atvinnulífið og þeir væru ekki með skuldir á bakinu.

Við erum nefnilega ekki svo langt frá þessum tíma í því kerfi sem við erum í núna, með persónuafslátt sem við þekkjum mjög vel, og við erum ekki svo langt frá þeim tíma þegar störfin sem þetta unga fólk vinnur í verslunum í dag verða ekki til. Hvar verðum við þá?