148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Ásamt mér eru flutningsmenn allur þingflokkur Viðreisnar og allur þingflokkur Samfylkingar, auk hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar í þingflokki Pírata. Okkur verður tíðrætt um það hvernig við bætum úr kynbundnum launamun á vinnumarkaði og raunar ekki bara hinum eiginlega kynbundna launamun, þ.e. að konur fái gegnumgangandi greidd 5–8% lægri laun fyrir sömu störf en karlar, heldur ekki síður hvernig við getum tekið á þeim gríðarlega mikla launamun sem er milli karla og kvenna almennt. Sá munur endurspeglast í því, samkvæmt skýrslu sem unnin var á samstarfsvettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, að konur fá að jafnaði 15–20% lægri laun en karlar. Það endurspeglast síðan í umtalsvert lakari lífeyrisréttindum. Til viðbótar við umtalsvert lægri laun í fullu starfi þá er það enn svo, eins og við ræddum varðandi fæðingarorlofið fyrr í dag, að fjölskylduábyrgð liggur í miklu ríkari mæli hjá konum en körlum, sem þýðir að þátttaka þeirra á vinnumarkaði er að jafnaði styttri en karla. Lífeyrisréttindi kvenna eru því allt að þriðjungi lakari en lífeyrisréttindi karla þegar þátttöku á vinnumarkaði lýkur.

Í fyrrnefndri skýrslu, sem unnin var af aðilum vinnumarkaðarins í samstarfi við stjórnvöld, og unnin af Hagstofunni í samstarfi við þessa aðila, kemur í ljós, sem eru kannski ekki mikil tíðindi fyrir þingheim, að vinnumarkaðurinn okkar er gríðarlega kynskiptur. Við sjáum mjög stórar kvennastéttir, t.d. í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og í kennslu; hlutfall kvenna af heildarstarfsmannafjölda viðkomandi atvinnugreina er um og yfir 80%. Í skýrslunni kemur einnig fram að það er kannski ein af meginskýribreytunum á launamun karla og kvenna, að þessar stéttir eru gegnumgangandi á umtalsvert lakari kjörum en sambærilegar stéttir á vinnumarkaði, þar sem sambærilegrar menntunar er krafist en þar sem kynjahlutföllin eru talsvert önnur og starfsmenn þá í miklum meiri hluta karlar. Þetta er viðfangsefni sem við þurfum með einhverjum hætti að taka á.

Eflaust má spyrja: Er þetta ekki viðfangsefni vinnumarkaðarins? Er þetta ekki bara hinn frjálsi samningsréttur aðila að semja um kaup og kjör? Jú, vafalítið má ræða um það á þeim nótum en þá ber að hafa í hug að þessar stéttir starfa fyrst og fremst hjá hinu opinbera, hjá ríki og sveitarfélögum. Það er því á ábyrgð þessara sömu vinnuveitenda, ríkis og sveitarfélaga, að tryggja að launakjör þessara hópa séu sambærileg við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði í öðrum atvinnugreinum, hjá öðrum starfshópum með sambærilega menntun og sambærilega ábyrgð. Ef við höldum aðeins áfram með frjálsan samningsrétt í þessu samhengi, þá má líka hafa í huga að á hinum almenna vinnumarkaði hafa laun tilhneigingu til að hækka umfram gerða kjarasamninga til að leita jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar. Það gerist mun síður hjá hinu opinbera þar sem kjarasamningar eru miklu fastbundnari, launakerfi opinberra stofnana miklu fastmótaðra og óbreytanlegra en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það birtist í öðru vandamáli, sem er einmitt sameiginlegt með öllum þessum stéttum, sem er verulegur skortur á starfsfólki í þessum mikilvægu stéttum eða atvinnugreinum. Ekki verður lítið gert úr mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar, félagsþjónustunnar og menntakerfisins en alls staðar sjáum við sömu hættumerkin, þ.e. það vantar starfsfólk. Við þekkjum þetta vel úr dagvistunarumræðunni. Við þekkjum vel vanda menntakerfisins við að ráða til sín einstaklinga með þá menntun sem krafist er. Við þekkjum þetta ekkert síður vel í heilbrigðiskerfinu þar sem sömu vandamál eru til staðar. Með þeim þremur stéttum sem ég fjallaði um hér er einn mikilvægur þáttur sameiginlegur, þ.e. að um eða innan við 50%, eða helmingur, þeirra sem menntað hafa sig til þessara starfa starfa í þessum atvinnugreinum. Ég held að við verðum að horfast í augu við að það er augljós markaðsbrestur í launamyndun á þessum markaði. Við erum einfaldlega ekki að greiða þessum hópum í takt við ábyrgð, menntunarkröfur og þau tækifæri sem þeim bjóðast annars staðar. Á þessu þarf að taka. Og þegar það helst síðan í hendur við þá staðreynd að þetta er ein af stærstu skýribreytum þess að konur eru á umtalsvert lakari kjörum almennt á vinnumarkaði en karlar þá getum við ekki stungið höfðinu í sandinn lengur hvað þetta varðar.

Þetta er ekki auðvelt viðfangsefni, vafalítið værum við löngu búin að lagfæra þetta ef svo væri. Þetta krefst samstarfs við allan vinnumarkaðinn. Við þekkjum sögu vinnumarkaðarins í gegnum árin, áratugina raunar, þ.e. að launakröfur, leiðréttingarkröfur, einstakra hópa, eins og hér er verið að ræða um, verða mjög gjarnan að launakröfum allra annarra á vinnumarkaði. Það þarf samstillt átak stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar allrar, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, til að greina þann launamun sem þarna er, þennan kynbundna launamun á milli þessara mikilvægu starfsstétta, hvernig við getum leiðrétt stöðu þeirra, hvað þarf til og að aðrir hópar samþykki þá leiðréttingarþörf sem þarna er að finna, til að þær sérstöku hækkanir sem þessir hópar fengju í kjölfar átaks af þessu tagi verði ekki grundvöllur að kröfum annarra hópa á vinnumarkaði heldur ríkti almenn og víðtæk sátt um að þörf væri á þessari leiðréttingu og hún yrði virt af öðrum hópum á vinnumarkaði.

Við leggjum því til hér að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta. Átakið feli í sér gerð sérstaks kjarasamnings um bætt launakjör þessara stétta. Ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Á grundvelli þeirrar greiningar verði gerður sérstakur kjarasamningur um leiðréttingu á kjörum þessara stétta sem feli í sér sérstakar hækkanir til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga á vinnumarkaði. Þetta komi sem sérstakur sjálfstæður hliðarsamningur sem víðtæk samstaða náist þá vonandi um og leitast verði við að ná slíkri samstöðu meðal helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar og um leið samþykki fyrir því að þessar sérstöku hækkanir verði ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta.

Ég vona að hér á þingi geti skapast víðtæk samstaða um slíkt átak. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í jafnréttisumræðunni. Við erum, eins og ég hef áður sagt, með mjög kynskiptan vinnumarkað. Það er skammarlegt að horfa til þess hvernig við verðmetum þessi mikilvægu störf mun lakar en almennt tíðkast í sambærilegum störfum annars staðar á vinnumarkaði. Ég get eiginlega ekki sagt annað en að þegar maður horfir á þennan vanda þá er eiginlega eins og hið opinbera hafi aldrei tímt að taka á þessu. Því vissulega eiga þessar stéttir annað sammerkt en það eitt að vera hámenntaðar kvennastéttir, þær eru fjölmennar stéttir. Þetta eru gríðarlega stórir hópar og við vitum því að það hefur kostnað í för með sér að lagfæra kjör þeirra. En við erum að tala um undirstöður heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Við getum ekki boðið upp á gæðaúrræði í dagvistun án þess að vera með hæfa leikskólakennara við störf, nægjanlegan fjölda. Við getum ekki boðið upp á það öfluga menntakerfi og þá fjárfestingu sem við þurfum að ráðast í í menntakerfinu okkar á komandi árum, eins og rætt var fyrr í dag, þegar við ræddum áskoranir í tengslum við fjórðu iðnbyltingu og ríkari kröfur til menntunar en við höfum áður vanist. Það leysum við ekki öðruvísi en með því að hafa hæft starfsfólk til að manna kennarastöður. Í heilbrigðiskerfinu okkar er stöðugt vaxandi þörf fyrir heilbrigðisþjónustu vegna öldrunar þjóðarinnar. Það krefst aftur fleira fólks til starfa í heilbrigðiskerfinu. Það leysum við heldur ekki nema hafa gott framboð af hæfu fólki. Það er líka vaxandi áhyggjuefni að það dregur úr aðsókn að námi í þessum greinum. Það finnst mér augljós merki þess að launastigið þarna er einfaldlega of lágt. Allur samanburður sýnir okkur líka að kynbundinn launamun má að stórum hluta rekja til þessara stétta. Það er augljóst að við greiðum sambærilegum karlastéttum hvað varðar ábyrgð og menntun talsvert hærri laun en þessum mikilvægu stéttum. Á þessu þurfum við og verðum að taka og verðum að vera tilbúin að veita í það það fjármagn sem til þarf.

Ég vonast til þess að um þetta geti skapast víðtæk samstaða hér í þinginu og víðtæk samstaða í samfélaginu; hið nauðsynlega samstarf við aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfinguna, um að skapa þá sátt sem nauðsynleg er til að lyfta hér grettistaki og leiðrétta þessi kjör. Það gætu orðið ágætishliðaráhrif af því að þetta er mikilvægt skref í átt að því opinbera markmiði stjórnvalda að útrýma kynbundnum launamun á vinnumarkaði hér á landi fyrir árið 2022. Ég vonast til góðs samstarfs við aðra þingmenn um þetta mál og óska þess að það gangi að lokinni þessari umræðu til allsherjar- og menntamálanefndar.