148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Þetta snýst kannski umfram allt um að hið opinbera axli þá ábyrgð sem felst í því að vera ekki bara aðilinn sem setur lögin og reglurnar heldur líka að vera stærsti atvinnurekandi landsins og að haga sér eins og við hjá löggjafanum ætlumst til þess að aðrir geri. Þess vegna hnaut ég dálítið um orðalagið í tillögunni. Verið er að gera samanburð við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera, stendur í tillögugreininni. Í 19. gr. jafnréttislaga, um launajafnrétti, er talað um að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Mér þykir þetta eiginlega segja saman hlutinn. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort við séum hér að leggja til að fara í greiningu á því hvort að hið opinbera sé, sem þessi stóri atvinnurekandi, ekki í reynd að brjóta gegn 19. gr. jafnréttislaga og hafi gert um langa hríð.