148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og ráðherranum fyrir að koma inn í hana. Það er eins og menn ætli áfram að berja hausnum við steininn varðandi þetta mál. Ráðherrann fer hreinlega með fleipur. Sérfræðingar hafa bent á að þetta er einmitt ekki besti staðurinn til að reisa nýjan spítala, bæði út frá umferð, skipulagsmálum og öðru slíku. Það er ekki tekið tillit til þess núna varðandi skipulagsmálin, svo dæmi sé tekið, stóraukinnar fjölgunar ferðamanna, bílaumferðar og alls þessa.

Svo segir ráðherrann líka við okkur að starfsmenn séu á einu máli. Birt var könnun á blaðamannfundi, sem Framsóknarflokkurinn hélt með samtökunum Betri spítala á nýjum stað, sem blásið var til og fjölmiðlar boðaðir þar sem flokkurinn kynnti stefnu sína varðandi nýjan spítala sem er að það eigi að reisa hann á öðrum stað. Sá flokkur hefur annars algjörlega umpólast í þeirri umræðu, væntanlega aðeins til þess að komast í ríkisstjórn. Myndin af blaðamannafundinum þar sem Framsóknarmenn sitja með fulltrúum Betri spítala er ótrúlega falleg en hins vegar er ekkert að marka þann flokk, það er alveg ljóst.

Hæstv. ráðherra. Samkvæmt könnun vilja 80% hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum nýjan spítala á öðrum stað, þeir vilja hann ekki þarna. Og meiri hluti lækna líka samkvæmt könnuninni sem birt er með þessari fallegu mynd af Framsóknarflokknum á blaðamannafundinum, þar kemur fram að læknar eru einnig á því að byggja eigi spítalann á öðrum stað. Hæstv. ráðherra minntist á þingsályktun í máli sínu sem var afgreidd í þinginu 2014/2015. Þeirri þingsályktun var breytt og sérstaklega tekin úr henni orðin „nýr spítali við Hringbraut“. Þingsályktuninni var breytt af því að það var engin samstaða um málið. Nú hristir hæstv. ráðherra hausinn, ég held að hann ætti að fylgjast með umræðunni, lesa tillöguna, sjá hvernig henni var breytt og hætta að fara með rugl í ræðustól.