148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

NATO-þingið 2017.

96. mál
[14:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér flyt ég skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2017.

NATO-þingið er þingmannasamtök og hefur allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu, auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra; Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands, sem þýðir að þessi ríki geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Íslandsdeild var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Alfreðsdóttir varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang alþjóðaritari.

Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2017 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Stjórnmálanefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Varnar- og öryggismálanefnd: Jón Steindór Valdimarsson.

Nefnd um borgaralegt öryggi: Jón Steindór Valdimarsson.

Efnahagsnefnd: Lilja Alfreðsdóttir.

Vísinda- og tækninefnd: Lilja Alfreðsdóttir.

Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

14. desember síðastliðinn var ný Íslandsdeild kosin og gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um.

Aðalmenn eru Njáll Trausti Friðbertsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks.

Lilja Alfreðsdóttir var á árinu skýrsluhöfundur annarrar undirnefndar efnahagsnefndar NATO-þingsins um efnahagslegt samstarf yfir Atlantshafið.

Á vettvangi NATO-þingsins árið 2017 bar hæst baráttuna gegn hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu. Mannskæðar hryðjuverkaárásir undanfarin ár og nú síðast í Manchester í maí, Barcelona í ágúst og New York í október 2017, juku enn á áhyggjur aðildarríkjanna og leiddu m.a. til aukinnar áherslu á sameiginlega baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum. Þá var óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í brennidepli, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa stóraukið straum flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum. Hryðjuverkasamtök í Sýrlandi, Írak og Líbíu hafa valdið auknu óöryggi í Miðausturlöndum sem krefst stjórnmálalegra viðbragða svo að ná megi fram stöðugleika.

Jafnframt var rík áhersla lögð á kólnandi samskipti NATO og Rússlands og ástandið í Úkraínu eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla var lögð á samstöðu með íbúum Úkraínu og að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Samskipti NATO við Rússland hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Í umræðum nefndarinnar var þó lögð áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins.

Enn fremur varð mönnum tíðrætt um mikilvægi þess að draga úr niðurskurði á fjárframlögum til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna og deila ábyrgð innan bandalagsins. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússlandi. Einnig var rætt um mikilvægi nánara samstarfs milli NATO og Evrópusambandsins og ályktun samþykkt á grundvelli þess.

Þá var rætt um áframhaldandi stuðning við varnar- og öryggismál í Afganistan, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Eftir brottför fjölþjóðahersins þyrfti engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Þá voru jafnréttismál innan NATO-þingsins til umræðu. Var sjónum sérstaklega beint að kynjajafnvægi innan þingsins, þ.e. hvernig kynjahlutföll væru í starfi þingsins og uppbyggingu og hvernig jafnréttissjónarmiða væri gætt við stefnumótun. Einnig voru til umræðu útfærslur NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2017 má nefna öryggismál á norðurslóðum, viðbúnaðaráætlun bandalagsins, fullgildingu aðildar Svartfjallalands að NATO og samstarf og stefnu um að opna fyrir nýjum aðildarríkjum. Jafnframt hefur NATO-þingið fylgst vel með þeim málum sem hafa verið ofarlega á baugi í alþjóðlegri öryggismálaumræðu utan sem innan bandalagsins og snerta m.a. orkuöryggi, netöryggi, eldflaugavarnir og mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum breytinga í alþjóðastjórnmálum.