148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:25]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Sá sem hér stendur er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu. Ég vil byrja á þakka flutningsmanni og þeim sem tekið hafa til máls fyrir þeirra innlegg í þetta mál sem er síður en svo einfalt. Það þarf að skoða það frá mjög mörgum hliðum til þess að átta sig á því hvað er skynsamlegt að gera eða gera ekki í þessum efnum. Tilgangur flutningsmanna er fyrst og fremst sá að opna málið, þ.e. að við fjöllum um þetta mál frá sem flestum hliðum.

Sjálfsagt er þingsályktunartillagan ekki fullkomin og er mjög margt sem hafa þarf undir. En ég lít ekki þannig á að afgreiðsla þingsályktunartillögu af þessu tagi sé þar með orðin grundvöllur að lagabreytingum eða þess háttar, heldur vilja menn byrja einhvers staðar. Þetta mun taka langan tíma. Þetta mun ekki verða staðfest með lögum á þessu þingi og trúlega ekki því næsta. Reynsla annarra þjóða sem fetað hafa þessar brautir er sú að það þarf lengri tíma, það þarf umræðu í þjóðfélögum um þetta allt saman.

En ég held líka að sé gríðarlega mikilvægt þegar við tölum um mál af þessu tagi að við gætum þess öll að við séum að tala um sama hlut, þ.e. að hér er verið að fjalla um dánaraðstoð. Nefnd hafa verið nokkur ríki sem farið hafa þessa leið. Mér finnst þetta í grunninn snúast um einstaklinginn og hvaða ráð hann hefur yfir eigin lífi og eftir atvikum, í þessu tilviki dauða. Þetta byggist á því að einstaklingurinn taki sjálfur þessa ákvörðun en um leið eru henni sett mikil takmörk, þ.e. hér er verið að biðja um aðstoð við að deyja, það er stór þáttur. Við vitum að einstaklingar kjósa síðan aðrar leiðir sem þeir grípa því miður til oft í örvæntingu eða vegna einhverra aðstæðna og fá svo sem enga aðstoð við það. Það er ákvörðun sem menn taka.

Hér hefur talsvert verið minnst á Holland. Einnig hefur verið minnst á, og ég skil það mjög vel og hef sjálfur áhyggjur af því, að opnun á svona leiðir bjóði heim hættunni á einhvers konar misnotkun og að fólk sé með einhverjum hætti þvingað út í að feta þessa slóð, sem er vægast sagt mjög afdrifarík og verður ekki aftur tekin ef hún verður farin. Þannig að hér þarf að vanda mjög til.

Ég er ekki sérfræðingur í heilbrigðiskerfum annarra landa og varla í okkar eigin heilbrigðiskerfi ef út í það er farið, en dánaraðstoð hefur verið lögleidd í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg, sem eru ríki sem ég held að hafi þokkalegt heilbrigðiskerfi þó að ég ætli ekki að hafa uppi nein stór orð um það.

Mig langar til að vitna í samantekt sem lögð var til grundvallar ályktun sem ungliðahreyfing Viðreisnar, sem heitir því merkilega nafni Uppreisn, samþykkti á málefnaþingi fyrir nokkrum dögum síðan. Kjarni málsins er sá að dánaraðstoð er veitt af lækni, af því að vorum að tala um heilbrigðisstarfsfólk, það er alltaf læknir sem aðstoðar ef út í það er farið. Skilyrðin í Hollandi eru m.a., ef ég má lesa upp úr ályktuninni, að læknirinn:

„1. sé sannfærður um að ósk sjúklingsins sé sjálfviljug og vel ígrunduð,

2. sé sannfærður um að þjáning sjúklingsins sé viðvarandi (ómeðhöndlanleg) og óbærileg“ — það er býsna afgerandi skilyrði,

„3. hafi upplýst sjúklinginn um ástand hans og horfur,

4. að sjúklingurinn sé sannfærður um að engin önnur skynsamleg úrræði séu í boði.“

Síðan þarf tvo lækna til og allt það.

Við erum ekki að tala um einhvern langveikan einstakling, fatlaðan einstakling sem er í sjálfu sér ekki þjakaður af óbærilegum þjáningum en tilveran er kannski ekki skemmtileg eða eitthvað slíkt, það er ekki næg ástæða, heldur óbærileg þjáning þar sem engin lækning eða linun þjáningarinnar er í augsýn. Þá fyrst kemur dánaraðstoð til greina.

Hér var líka minnst á heilabilaða einstaklinga, t.d. alzheimersjúklinga. Í hollensku reglunum er mjög skýrt tekið fram að að ekki sé hægt að veita t.d. alzheimersjúklingi dánaraðstoð af þessu tagi sem er metið þannig að hann geti ekki tekið yfirvegaða ákvörðun í þessum efnum. Þess vegna er lögð mikil áhersla á það í hollenska kerfinu að fólk, segjum fullorðið fólk sem er á fyrstu stigum alzheimersjúkdómsins, ræði við heimilislækni sinn um að komi til þess að það verði komið í þessa stöðu innan einhverra ára eða hvenær það kann að vera, sé það ósk sjúklingsins að eitthvað verði gert.

Það er mjög mikilvægt að hafa það allt saman í huga. Síðan er líka rétt að hafa í huga að í Hollandi, sem okkur er tíðrætt um því að við virðumst hafa kynnt okkur það einna best, er það þannig að sjúklingur getur ekki krafist þess af lækni að hann aðstoði með þessum hætti. Læknir getur alltaf neitað og vísað sjúklingnum frá sér til annars læknis.

Ég vildi bara hnykkja á þessum atriðum. En ég tek heils hugar undir það með öllum sem hér hafa talað að það er nauðsynlegt að við opnum umræðuna og tökum hana með yfirveguðum hætti og ráðfærum okkur og leitum gagna og upplýsinga sem víðast þannig að við getum undirbyggt vandaða umræðu. Hún fer náttúrlega ekki bara fram á þingi, hún þarf auðvitað líka að fara fram úti í samfélaginu. Ef slík leið verður fetuð þarf að ríkja um hana þokkaleg sátt í samfélaginu, að þetta sé eðlilegt og skynsamlegt og gangi ekki á rétt eins eða neins. En markmiðið hér er sjálfsákvörðun einstaklingsins sem býr við þessar aðstæður að tilveran er orðin óbærileg vegna sjúkdómsins, vegna sársauka og engin meðferð eða meðhöndlun er fyrirsjáanleg.

Síðan er annað sem tengist þessu, sem er líknandi meðferð. Ég held líka að sé ekki hægt að loka augunum fyrir því, þó að ég ætli ekki að vera uppi með neinar fullyrðingar í því samhengi, að rannsóknir benda til þess að þess eru dæmi að fólk aðstoði við að deyja þó að reglur í strangasta skilningi leyfi það ekki. Það er líka nokkuð sem við verðum að viðurkenna er til. Að því leyti til kann að vera skynsamlegra að hafa um þetta greinargóðar reglur, strangar reglur, þannig að bæði sjúklingunum og heilbrigðisstarfsfólkinu líði vel í eigin skinni um það hvað fer fram þegar fólk er í þessari stöðu.

Ég þakka aftur fyrir umræðuna og vona að við eigum gott samtal um þetta mál. Það er þess eðlis og það er ekki pólitískt mál. Þetta er meira spurning um siðferðileg álitamál og lífsviðhorf eða viðhorf til lífs og dauða. Þannig að við þurfum að vanda okkur og reyna að ná góðri sátt um það sem verður gert eða ekki gert í þessum efnum.