148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessar mikilvægu umræður. Hér er fjallað um það sem ég kalla ljósfælna framkomu við fyrst og fremst erlent en líka innlent launafólk. Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég hafði rökstuddan grun um það 1998 við viðgerðir á fjölbýlishúsi hér í bæ að þannig væri háttað, að það erlenda verkafólk sem þar vann væri hlunnfarið. Annar þáttur í því máli er einfaldlega sú faglega færni sem má oft draga í efa hjá því fólki sem þarna er ráðið og farið með á þennan hátt. Það er áhyggjuefni.

Nú sjáum við fjölmörg dæmi úr fjölmiðlum um hvar pottur er brotinn. Þessi áníðsla, sem við getum kallað svo, varðar ekki aðeins laun og kjararéttindi heldur einnig félagslega þáttinn. Þegar kemur að launum og kjararéttindum er svokallað jafnaðarkaup gjarnan notað, útsmurður taxti sem er notaður á öllum tímum sólarhrings og er eins og menn vita ólöglegur. Það er mjög algeng aðferð. Í félagslega þættinum eru það búsetuúrræðin sjálf, aðbúnaðurinn í bústað þessa fólks. Ég veit dæmi um 12 manna bústað með jafn mörgum herbergjum og einu salerni og einni sturtu. Þetta er nokkuð sem ég hef heyrt.

Okur á greiðslum fyrir slíkt er líka mjög algengt. Þetta er algengt í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, eins og kemur fram í fyrirspurninni, en ég held að það séu fleiri svið, eins og t.d. þrif á húsum.

Það er mjög mikilvægt að upplýsinga- og eftirlitsþátturinn verði efldur því að þar liggur hluti lausnarinnar. Ég vil hvetja stjórnvöld jafnt sem hreyfingu launafólks (Forseti hringir.) og atvinnurekenda til að velta við öllum steinum og afhjúpa hina ljósfælnu starfsemi sem er skammarblettur á samfélaginu.