148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

efnisgjöld á framhaldsskólastigi.

[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er mjög þarft mál vegna þess að þingið tók í sameiningu ákvörðun um að fella niður efnisgjöld á framhaldsskólastiginu. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem við framfylgjum og kemur sérstaklega vel út fyrir þá sem eru í verk- og starfsnámi.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það var ekki alveg ljóst hver þessi kostnaður væri. Það sem ráðuneytið gerði í kjölfarið var að strax 2. janúar funduðu fulltrúar ráðuneytisins með skólameisturum og öðrum og óskuðu eftir því að þeir myndu gera grein fyrir því hversu mikill kostnaðurinn væri. Þessi vinna hefur verið í gangi í talsverðan tíma vegna þess að í lögunum er greininni skipt í tvennt, a- og b-hluta, og það er svolítið mismunandi hvernig skólarnir hafa skilgreint efnisgjöld, en skilgreiningin er sú að ekki megi taka gjöld af nemum ef framhaldsskólinn ákveður að þetta sé skylduhluti af náminu. Þessi fyrirspurn var strax send á skólana og mér sýnist að kostnaðurinn sé í kringum 250–280 milljónir, en endanleg tala er þó ekki komin fram. En það sem skiptir mestu máli er að þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir þá sem eru í verk- og starfsnámi. Þingið allt á miklar þakkir skildar fyrir að hafa komið inn í þetta mál og minnkað kostnað þeirra sem eru á framhaldsskólastiginu.