148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni yfir þeirri ákvörðun sem tekin var í morgun af hálfu forsætisnefndar og þeim drögum sem lögð voru fyrir væntanlega alla þingflokka í framhaldinu að því hvernig við ætlum að upplýsa og vera meira opið þing en verið hefur. Við höfum verið að kljást við það, illu heilli, að þingið hefur verið of lokað hvað varðar upplýsingar um greiðslur til þingmanna. Þó að upplýsingarnar séu á vef þingsins um það hvað hver fær, í hvers konar stöðu hann er og allt það, hef ég lengi sagt að það á að vera hægt að fletta t.d. mér upp sem þingmanni og þar undir á að standa hvaða hlutverki ég gegni í þinginu, hvaða greiðslur ég fæ, hvort sem það er útlagður kostnaður eða annað. Það á að vera mjög einfalt.

Ég tek undir að það á bara að vera hægt að smella á hlekkinn sem er undir tiltekinni ferð eða fundi eða guð má vita hvað, þar sem kemur fram hvað ég var að gera. Það er ekki mjög svo flókið. Ég er bara ánægð með að við skulum loksins vera komin á þann stað árið 2018, ekki þó fyrr, það er að gerast núna, að það verður almenningi skiljanlegt (Forseti hringir.) sem fram kemur þó að stórum hluta á netinu en þó ekki að öllu leyti.