148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa áhugaverðu umræðu. Auðvitað er hún bara liður í því að heyra skoðanir þingsins og hjálpa til við að útfæra frumvarp þegar þar að kemur, þegar starfshópurinn hefur lokið störfum sínum og við sjáum hvert við stefnum. Það er að sjálfsögðu grundvallarmarkmið í störfum okkar, bæði þingsins og framkvæmdarvaldsins, að hafa hag almennings að leiðarljósi. Allir sem starfa í þessum hópi, fyrir utan þá sem hafa beina hagsmuni, eru vitanlega að starfa að þeim þætti. Svo því sé nú svarað.

Mér fannst þetta áhugaverð umræða. Mjög ólík sjónarmið. Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni að við þurfum að fara varlega og benti einmitt á það sem hefur komið fram víða erlendis varðandi þessi nýju fyrirtæki, Uber og Lyft, um deilihagkerfið, þar sem Evrópudómstóllinn hafnar því hreinlega að um slíkt sé að ræða og fellir þau undir flutningsfyrirtæki. Sem segir okkur að tilhneiging er til þess að gera sömu kröfur til allra. Auðvitað verðum við að fara varlega í þessu máli. Við erum að fjalla um hagsmuni fólks sem býr inni í ákveðnu kerfi.

Einhver þingmaðurinn nefndi að við ættum að læra af reynslu annarra. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Horfa á það sem er að gerast á Norðurlöndunum, m.a. vegna tilmæla ESA eða EES-samningsreglna en líka vegna þess að þar hafa menn verið að þróa þetta. Sumir eru að fara aðeins til baka aftur vegna þess að þeir gengu of langt. Það er ekki nóg stundum að æpa frelsi, frelsi. Danir velta því t.d. fyrir sér að á ákveðnum svæðum í Danmörku sé ekki nægilega tryggt að þar verði þjónusta og hafa þá heimild til að gera einhverja ákveðna hluti. Við þurfum að skoða alla þessa þætti.

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason talaði um að við værum heppin hér á landi með öryggi. Ég held að það sé ekki eingöngu heppni. Ég held að það sé vegna þess að kerfið hafi verið þannig útbúið. Þess vegna er svo mikilvægt, eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson sagði, að við verðum að vinna að því (Forseti hringir.) að bæta regluverkið, hafa samráð og samstarf við hagsmunaaðilana, við aðilana sem vinna í geiranum. En aðalmálið er að tryggja gæði og öryggi fyrir þá sem nota þjónustuna.