148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

heimsókn forseta grænlenska þingsins.

[13:30]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég vil vekja athygli hv. alþingismanna á því að við höfum í þinghúsinu í dag góðan gest; forseti grænlenska landsþingsins, Lars-Emil Johansen, er staddur á þingpöllum. Forseti grænlenska þingsins er í heimsókn í Alþingishúsinu í tengslum við vinnuheimsókn til Íslands.

Ég vil fyrir hönd Alþingis bjóða forseta grænlenska þingsins, Lars-Emil Johansen, velkominn í þinghúsið. Ég vænti þess að heimsókn hans til Íslands verði til þess að styrkja enn frekar þau góðu tengsl sem eru milli landa okkar.

Lars-Emil Johansen hefur um áratugaskeið verið einn fyrirferðarmesti stjórnmálamaður Grænlands. Hann varð snemma áberandi í nýrri kynslóð grænlenskra forystumanna sem börðust fyrir aukinni heimastjórn og sjálfstjórn Grænlands. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og félaga hans í þeirri baráttu, þeirra Moses Olsens og Jonathans Motzfeldts. Lars-Emil mun hverfa af þingi síðar á þessu ári þegar kosningar verða í Grænlandi og því er sérlega ánægjulegt að fá hann nú í heimsókn.

Alþingi vottar forseta grænlenska þingsins og grænlensku þjóðinni vináttu og virðingu. Ég bið hv. alþingismenn að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn risu úr sætum.] — Takk fyrir.