148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Fyrir skömmu var tilkynnt um hækkun fasteignamats sem er árlegur viðburður. Hækkunin er gegnumsneitt 14% á íbúðarhúsnæði og upp undir 40% á sumarhúsum eða frístundahúsum sem svo eru nefnd. Þessi hækkun á fasteignamati leiðir til samsvarandi hækkunar á fasteignagjöldum nema sveitarstjórnir ákveði samsvarandi lækkun á álagningarhlutfalli.

Þessi þynging á skattbyrði snertir allan almenning í landinu. Í landinu er á annan tug þúsunda sumarhúsa. Forráðamenn í verkalýðshreyfingunni hafa upplýst mig um að algengt sé að félagsmenn í verkalýðsfélögum eigi slík hús þannig að hér eru hagsmunir alls almennings undir.

Í ljósi þessara miklu hækkana má spyrja um framlag til efnahagslegs stöðugleika, það má spyrja um fyrirsjáanleika og annað af því tagi. Þeir sem verða fyrir því að kikna undan þessum álögum vita hvað þeirra bíður. Það er skattaklóin, enda er söluhagnaður af slíkum húsum skattlagður ótæpilega eins og menn vita.

Herra forseti. Hækkun fasteignagjalda gerist án þess að nokkur taki um það ákvörðun. Það er bara stofnun úti í bæ sem endurmetur þetta og þá hækka skattarnir. Þessi grundvöllur skattlagningar sem fasteignamatið er er ónýtur og óboðlegur. Vegna þess að hér er umræða um störf þingsins leyfi ég mér að boða frumvarp um úrbætur í þessu efni sem ég vonast eftir að víðtæk samstaða skapist um. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)