148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er grafalvarlegt ástand á vinnumarkaði, það vitum við. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við forsætisráðherra um sátt á vinnumarkaði og kjararáð. Ef þetta er þáttur sem skiptir þingmanninn virkilega máli, sem ég trúi að sé, spyr ég hvort hann sé ekki tilbúinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og kalla eftir því að ríkisstjórnin leiðrétti laun þingmanna sem fengu þessa gríðarlegu hækkun á sínum tíma. Við getum farið þangað með umræðuna.

Það gengur ekki að hv. þingmaður slái um sig með því að segja að hann vilji ekki samþykkja það frumvarp sem við ræðum núna út af því að það komi verst við launafólk í landinu, fólkið sem hafi það verst. Það er nákvæmlega því fólki sem hugsanlega er verið að stefna í gríðarleg verkföll vegna þess að laun þingmanna og ráðherra hafa ekki verið leiðrétt og lækkuð í samræmi við almenna launaþróun. Ef þingmaðurinn er tilbúinn að taka þann slag með mér skal ég trúa því fullkomlega að mál hans nú snúist um þessa frídaga og laun og stöðu þess verkafólks sem hefur það sem verst.

Snúum okkur að frumvarpinu sem við erum að ræða. Það er mikilvægt að menn séu heiðarlegir þegar þeir koma í ræðustól varðandi það. Ég er farinn að efast örlítið um hv. þingmann vegna þess að hann dansar í kringum þessa hluti. Jú, hann skal taka bingóið út. En hvers vegna er þingmaðurinn ekki tilbúinn til að segja hverju hann vill halda inni? Hvað má banna fólki að gera á helgidögum? Ef hann vill gera breytingar á frumvarpi um helgidagafrið, er það þá bara bingóið sem má taka út eða hvað? Ég held að þetta sé svolítið meiri íhaldssemi en það, ég skil að þingmaðurinn er íhaldssamur. En hann á bara að segja það opinskátt að hann vilji ekki að þessi 4. gr., sem bannar ýmiss konar hegðun á lögbundnum helgidögum, sé þarna undir. Það er hans íhaldssemi sem segir að svo skuli vera. Þá skulum við heyra það og vera heiðarleg með það. Maðurinn er íhaldsmaður. Fáum það upp á borðið hvað það er raunverulega sem knýr fólk áfram í þessu máli.