148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég tel að forysta launamanna á Íslandi sé á rangri vegferð þegar hún ætlar að tvinna saman mögulega lækkun einhvers hóps, hver sem hann er, og nota það sem vopn til þess að hjálpa þeim sem lægst eru launaðir á Íslandi. (Gripið fram í.) Á sama tíma og þessir sömu forystumenn hafa sjálfir hækkað í launum langt umfram þann hóp sem þeir eru nú að heimta að taki lækkun til þess að þeir geti gert betri kjarasamninga. Nú spyr ég hv. þingmann: Hvar liggur þessi heiðarleiki, sem hann var að tala um? Ég trúi í sjálfu sér ekki á þetta.

Ég hef hins vegar gert ráðstafanir til þess sjálfur til að leiða fram með ákveðnum hætti stöðu launa þingmanna í samanburði við nokkrar aðrar stéttir sem vinna hjá ríkinu. Ég vona að ávöxturinn af því muni líta hér ljós á vordögum. Það er önnur saga.

Ég stend á því að ég sé ekkert að því að við tökum 4. gr. og skoðum hana, en ég legg líka áherslu á það að friður um þessar hátíðir skiptir mjög marga máli. Í því þjóðfélagi sem við lifum í nú, sem er með áreiti alla daga ársins, allan sólarhringinn, veitir okkur ekkert af hvílustundum og hvíldarstundum sem við getum átt, alveg sama hvort við förum í kirkju eða út að ganga eða hvað við gerum, okkur veitir ekkert af því að vera án mikils áreitis í smátíma, að við eigum grið einhvern tímann. Ég er þess vegna íhaldssamur, já, rétt, ég er það, ég ber það með mér, á það að menn eigi frið og grið með sínum nánustu.