148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:16]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að taka þetta mál fyrir og ræða. Það er verulega mikilvægt að við stöndum saman á hinu háa Alþingi og komum þessum hlutum í þann farveg að þeir séu ásættanlegir.

Svo ég nefni nokkur dæmi um hvernig staðan er í því kjördæmi sem ég kem úr, Norðausturkjördæmi, vantar enn fjóra til fimm lögreglumenn til að ná sama fjölda og var árið 2007. Náttúruvá og þess háttar sem við þekkjum vel í okkar kjördæmi, kallar óneitanlega á aukinn mannskap og löggæslu þar við. Allt það hálendiseftirlit sem þarf að fara fram tengt auknum ferðamannastraumi kallar á aukna löggæslu. Það er eitt af því sem við köllum eftir. Við viljum hafa aðgang að góðri löggæslu og það þarf einnig að vera stutt í hana.

Það er margt merkilegt við þá hagræðingu sem fram hefur farið innan lögreglunnar. Henni er gert að skera niður hér og þar. Til dæmis er eitt atriði að mínu viti mjög sérstakt; á Seyðisfirði er búið að loka lögreglustöðinni, en þar er samt mjög virkt landamæraeftirlit. Alls staðar þar sem við förum og þar sem við þekkjum til, t.d. Norðausturkjördæmi, ég tek það sérstaklega fyrir hér, vilja menn hafa lögreglu, hafa hana sjáanlega og til staðar.

Að lokum vil ég segja (Forseti hringir.) að það er okkar hlutverk að ekki bara að reyna að efla, heldur eigum við að efla löggæsluna.