148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

149. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir þessa ágætu tillögu. Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði hér, þetta er mjög mikilvægt mál og skiptir íbúa á Hornafirði sérstaklega miklu máli og einnig landsmenn alla því að flugsamgöngur á landsbyggðinni eru mjög mikilvægur samgöngumáti.

Í því sambandi er rétt að hafa í huga að flugsamgöngur myndu að sjálfsögðu létta álagi af þjóðvegum landsins ef þær væru notaðar í meira mæli. Brýnt er að létta á þessu álagi vegna þess að við vitum að því miður er ekki nógu gott ástand víða og uppbygging á þjóðvegakerfinu tekur langan tíma og er kostnaðarsöm. Á sama tíma er hægt að fara í uppbyggingu á flugvöllum eins og á Hornafirði með tiltölulega litlum kostnaði samanborið við uppbyggingu á þjóðvegakerfinu.

En það er annað sem er áhugavert við þetta málefni, nú hefur rutt sér til rúms ný tækni í þessum efnum, GPS-aðflugstækni, sem er mun einfaldari og ódýrari en sú tækni sem notuð hefur verið. Sem dæmi má nefna að flugmaður sem kemur í aðflug þar sem þessi nýja tækni er fyrir hendi, getur kveikt á brautarljósum og svo framvegis úr flugvélinni. Það skiptir einnig miklu máli í þessu samhengi og gefur auknar vonir um að Hornafjarðarflugvöllur, sem dæmi, verði samþykktur fyrir millilandaflug.

Einnig þarf að hafa í huga skilgreiningar í þessu sambandi. Hvað varðar Hornafjarðarflugvöll er slitlagið á flugbrautinni svokölluð klæðning sem við þekkjum úr vegakerfinu hér á landi. En þessi skilgreining hefur valdið misskilningi erlendis. Talað er um að þetta sé í raun og veru malarflugvöllur. Þetta þarf að skoða því að klæðningin hefur gefið góða raun.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi og umræðu að það er mjög mikilvægt að við finnum flöt á að niðurgreiða flugsamgöngur. Það er allt of dýrt að fljúga innan lands. Við þekkjum það. Ég nefndi það í þessum ræðustól í gær þegar ég ræddi flugsamgöngur til Vestmannaeyja, að fargjaldið frá Reykjavík til Vestmannaeyja og til baka er 32.800 kr. Það er nú bara langleiðin til Spánar frá Keflavíkurflugvelli. Það sjá allir að það er mjög brýnt að niðurgreiða fargjaldið. Við sjáum að niðurgreiðsla í almenningssamgöngukerfinu, eins og hvað strætisvagna varðar, hefur gefið góða raun. Þar er miðinn niðurgreiddur um allt að 85%.

Höfum í huga, svo ég rifji aftur upp fargjald til Vestmannaeyja, að af þessum 32.800 kr. tekur ríkissjóður 15.400 kr. í formi ýmissa gjalda og skatta. Það sér hver maður að 40% álag á farmiðann vegna skatta og gjalda mun draga verulega úr áhuga fólks á að ferðast með þessum samgöngumáta. Það er brýnt að fara í saumana á því.

Ég fagna þessari tillögu og vona að hún fái brautargengi vegna þess að þetta er mikilvægt mál og skiptir svæðið miklu máli, hún skiptir sjúkraflug máli og almennar flugsamgöngur á svæðinu.

Það er líka óhætt að nefna að það væri ekki úr vegi að kanna einnig að bæta flugvallaraðstöðu á Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal. Svo ég víki aðeins að Vík í Mýrdal er þar flugvöllur sem getur gagnast mjög vel t.d. við náttúruvá. Við vitum að samfélagið í Vík í Mýrdal býr við að Katla gæti gosið og fólk gæti þurft að yfirgefa sína heimabyggð mjög skyndilega. Það gæti farið svo að leiðir lokuðust. Þá væri flugvöllurinn mikið öryggisatriði.

Það er skynsamleg fjárfesting að mínu mati og ekki svo kostnaðarsöm. Mér skilst að það kosti um 160 milljónir að setja bundið slitlag á flugvöll eins og í Vík í Mýrdal, og reyndar á Kirkjubæjarklaustri líka. Það eru ekki háar upphæðir í samanburði við þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í samgöngukerfinu. En þarna er fljótleg leið til að bæta samgöngur inn á svæðin, bæði á Kirkjubæjarklaustri og í Vík í Mýrdal, svo dæmi sé tekið. Ef þessi tillaga verður að veruleika og fær brautargengi og fjárveitingar verður það upphafið að því að við förum að nýta flugsamgöngur meira á þessu svæði, í Suðurkjördæmi, og einnig á landsbyggðinni allri.

Ég segi að lokum, herra forseti: Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu og vona að tillagan fái brautargengi.