148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir þá ósk um að vegir verði skilgreindir upp á nýtt og skil vel að kominn sé tími til að leggja áherslu á að skilgreina utan hins hefðbundna hringvegar, þjóðvegar 1, önnur landsvæði með sama hætti. Það er auðvitað bara mjög gott og þannig ætti undirvinna samgönguáætlunar innan samgönguráðs og þar sem fagaðilar koma að hjá Vegagerð að vera, að forgangsraða og draga þetta inn í nútímann og gera það.

Ég verð að segja að mér finnst aðkoma Alþingis að vinnslu samgönguáætlunar ekki vera nægjanleg, því miður. Ég hef einhvern veginn upplifað það þau ár sem ég hef verið hér á þingi að þegar samgönguáætlun kemur þá sé á einhverjum öðrum stöðum búið að leggja línurnar, frekar en að þingmenn geti haft áhrif á forgangsröðun verkefna meira en er í dag.

Ég vildi gjarnan sjá einhverjar breytingar á þessu með fullri virðingu fyrir öllu fagfólki innan Vegagerðar og þeim sem koma að þeirri vinnu innan ráðuneytisins. Þessi umræða þarf, held ég, að eiga sér stað líka við lýðræðislega kjörna fulltrúa. Það eru breytt viðhorf, það eru aðrar kröfur, bæði út frá atvinnulífi, t.d. ferðaþjónustunni, og atvinnusvæðin eru orðin miklu stærri. Stjórnsýslan hefur verið að breytast og menn þurfa að sækja ýmislegt um lengri veg og öðruvísi en áður. Mér finnst að þingmenn eigi að koma að vinnslu samgönguáætlunar frá öllum flokkum miklu fyrr en gert er í dag.