148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem kallað hefur verið eftir nýjum vinnubrögðum á þingi. Gömlu vinnubrögðin eru einmitt þannig að þau einkennast af fúski að því leytinu til að mál koma fram allt of seint, það myndast mikil tímapressa og þau eru unnin allt of hratt og úr verða mistök eftir mistök sem þetta þing er hvað duglegast allra þjóðþinga við að leiðrétta.

Það er þess vegna sem við erum að kalla eftir nýjum vinnubrögðum af því að þessi mál hafa ekki komið fram, þau eru ekki að koma fram. Því sjáum við fram á að það verði sama gamla sagan, að málin koma allt of seint fram, það verði mikil tímaþröng, við þurfum að flýta okkur í gegnum þau og við fáum ekki nægan tíma til þess að vinna mál og sinna okkar aðalhlutverki.

Ég vil því kalla eftir því, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin sýni okkur á spilin og láti okkur vita hvaða mál koma eftir tilskilinn frest um að leggja fram ný mál. Þá getum við kannski unnið smáforvinnu, verið tilbúin fyrir þau mál sem í anda gamalla vinnubragða er enn og aftur verið að þröngva í gegnum þingið á methraða.